- Auglýsing -
- Spænski landsliðsmarkvörðurinn Gonzalo Pérez de Vargas hefur samið við þýsku meistarana í handknattleik karla, THW Kiel. Samningurinn tekur ekki gildi fyrr en sumarið 2025 og verður til fjögurra ára. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.
- De Vargas er 32 ára gamall og hefur leikið allan sinn feril með Barcelona. Hann hefur þegar skilað af sér fyrirliðastöðunni hjá Barcelona og Frakkinn Dika Mem tekinn við embættinu.
- Bjarki Már Elísson lék ekki með Telekom Veszprém í æfingaleik við Mol Tatabánya KC í gær. Hann er ekki kominn á fulla ferð eftir aðgerð á vinstra hné í byrjun júlí. Veszprém vann leikinn, 31:29.
- Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark þegar Gummersbach vann Skanderborg Aarhus, 33:27, í æfingaleik í Danmörku í gær. Hákon Daði Styrmisson var ekki á meðal markaskorara hjá Gummersbach í leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach átti afmæli í gær, varð 44 ára.
- Tumi Steinn Rúnarsson og samherjar í HSC 2000 Coburg gerðu jafntefli við TV Hüttenberg, 28:28, á heimavelli í fyrsta æfingaleik sínum á undirbúningstímabilinu. Nærri 600 áhorfendur fylgdust með leiknum sem fram fór í Coburg. Tumi Steinn tók þátt í leiknum og lagði upp mörk en skoraði ekki. Coburg leikur í næst efstu deild þýsku 2. deildarinnar á komandi leiktíð.
- U17 ára landslið Íslands í handknattleik kvenna mætir sænska landsliðinu í síðari leik sínum í milliriðlakeppni Evrópumótsins sem stendur yfir í Podgorica í Svartfjallalandi. Flautað verður til leiks klukkan 11.30. Textalýsing frá leiknum verður á handbolti.is. Einnig verður hægt að fylgjast með endurgjaldslausri útsendingu frá viðureigninni á ehftv.com.
- U17 ára landsliðið fær frí frá leikjum á morgun, fimmtudag, áður en kemur að leik á föstudaginn gegn liði úr hinum riðli milliriðlakeppninnar um sæti níu til sextán. Síðasti leikur íslenska liðsins fer fram á laugardaginn.
- U19 ára landslið karla á frí frá leikjum í dag á heimsmeistaramótinu í Króatíu en ferðast þess í stað frá Đurđevac til Rijeka. Um þriggja tíma rútuferð er á milli staðanna og verður lagt af stað rétt eftir hádegið að staðartíma. Rijeka er við Kvarnerflóa í Adríahafi og er þriðja fjölmennasta borg Króatíu.
- Í Rijeka mæta íslensku piltarnir þeim sænsku annað kvöld klukkan 18 í undanúrslitum forsetabikarsins, þ.e. 17. sætið mótins og það efsta úr hópi liðanna 16 sem leika í neðri hluta mótsins. Síðasti leikur íslenska liðsins verður á laugardaginn annað hvort um 17. eða 19. sæti gegn Svartfjallandi eða Marokkó.
- Auglýsing -