- Auglýsing -
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði fjögur mörk þegar Skanderborg AGF Håndbold vann GOG í æfingaleik í gær, 27:21. Þetta mun hafa verið fjórði æfingaleikur Skanderborg AGF Håndbold á nokkrum dögum.
- Þýska 1. deildarliðið Blomberg-Lippe, sem landsliðkonurnar Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir gengu til liðs við í sumar, vann Dortmund, 28:26, í æfingaleik í gær. Torsótt reyndist að leita upplýsinga um framgöngu Andreu og Díönu Daggar í leiknum.
- Stjarnan lagði ÍR í æfingaleik í handknattleik karla í Hekluhöllinni í Garðabæ í fyrrakvöld, 38:32. Þetta var fyrsti æfingaleikur Stjörnunnar fyrir komandi leiktíð en flautað verður til leiks í Olísdeildinni eftir um mánuð. Á Facebook-síðu Stjörnunnar segir að stefnt sé að æfingaleikjum við Aftureldingu og Val í næstu viku.
- Izet Gjinovci framkvæmdastjóri handknattleikssambands Kósovó lést skyndilega á dögunum 63 ára gamall. Gjinovci var framkvæmdastjóri sambandsins frá 2002 og til dauðadags. Hann er að mörgum talinn guðfaðir handknattleiks í Kósovó, var vakinn og sofinn yfir framgangi íþróttarinnar. Hann var síðast allt í öllu þegar B-hluti EM 20 ára landsliða var haldinn í Pristina í síðasta mánuði.
- Auglýsing -