- Auglýsing -
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði sjö mörk og átti eina stoðsendingu í naumum sigri Skanderborg AGF á Ribe–Esbjerg, 27:26, í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Leikið var í Esbjerg. Donni var markahæstur leikmanna Skanderborg AGF ásamt Emil Lærke.
- Skanderborg AGF er í 6. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 12 stig þegar 11 leikir eru að baki. Ribe-Esbjerg er sem fyrr næst neðst með þrjú stig.
- Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu í leiknum en hann leikur með Ribe-Esbjerg. Ágúst Elí Björgvinsson markvörður spreytti sig á einu vítakasti en varði það ekki. Félagi hans í markinu, Svíinn Niklas Kraft, átti ágætan leik.
- Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði sex skot, 21% þegar Aarhus Håndbold tapaði fyrir København Håndbold, 38:35, á útivelli í gær í dönsku úrvalsdeildinni. Ekki hefur gengið sem skildi hjá Aarhus Håndbold á keppnistímabilinu. Liðið er í 11. sæti af 14 liðum með fjögur stig í níu leikjum. Til stendur að fækka liðum í úrvalsdeild kvenna um tvö frá og með næstu leiktíð.
- Stiven Tobar Valencia skoraði tvö mörk fyrir Benfica þegar liðið vann sinnn 10. sigur í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Benfica lagði Madeira Andebol SAD á heimavelli með 10 marka mun, 35:25. Með sigrinum skaust Benfica upp fyrir Porto og í annað sæti deildarinnar. Porto á leik til góða eins og Sporting sem er efst og hefur ekki tapað stigi til þessa.
- Grétar Ari Guðjónsson og liðsmenn US Uvry töpuðu í gærkvöld sínum níunda leik í frönsku 1. deildinni í handknattleik þegar Nantes kom í heimsókn til Parísar og vann með 12 marka mun, 34:22. Grétar Ari var í marki Ivry annan hálfleikinn og varði 5 skot, 36%. Ivry er neðst í deildinni með eitt stig en Nantes er á hinn bóginn í öðru sæti með 18 stig úr 10 viðureignum.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsending í fjögurra marka tapi Alpla Hard á heimavelli gegn Ferlach, 35:31. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard en liðið situr í öðru sæti austurrísku 1. deildarinnar með 14 stig að loknum 10 leikjum. Krems er efst með 17 stig. Ferlach er á hinn bóginn í áttunda sæti deildarinnar með átta stig.
- Stöðuna í austurrísku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -