- Auglýsing -
- Portúgalski handknattleiksmaðurinn Gilberto Duarte gengur ekki til liðs við Vardar Skopje eins og til stóð. Hann mun væntanlega ganga til liðs við Göppingen í Þýskalandi eftir því sem fjölmiðlar í Norður Makedóníu greina frá. Ástæðan fyrir sinnaskiptum Duarte er sú að Vardar var á dögunum neitað um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili. Af því leiðir að liðið er ekki eins freistandi fyrir handknattleiksmenn og áður auk þess sem ljóst er að Vardar verður að draga saman seglin. Duarte hefur leikið með Montpellier undanfarin þrjú ár.
- Michael Haaß mun að öllum líkindum taka við þjálfun TuS N-Lübbecke en liðið féll úr þýsku 1. deildinni á dögunum. Í kjölfarið var þjálfaranum, Emir Kurtagic, sagt upp störfum. Haaß var leystur frá starfi þjálfara hjá Erlangen í upphafi ársins.
- Varnarjaxlinn Youssef Ben Ali verður ekki áfram í herbúðum Evrópumeistara Barcelona. Ben Ali kom til félagsins í nóvember þegar Luis Frade meiddist og var aðeins hugsaður til þess að hlaupa í skarðið um tíma. Ekki er víst hvert Ben Ali fer nú en hann var hjá Al Arabi í Sádi Arabíu þegar Barcelona fékk hann til sín.
- Ekkert verður af því að Diogo Silva da Borges gangi til liðs við KIF Kolding eins og vonir forráðamanna danska liðsins stóðu til. Borges mun hafa ákveðið að taka tilboði Nimes í Frakklandi og leika undir stjórn Ljubomir Vranjes sem nýlega var ráðinn þjálfari franska liðsins.
- Auglýsing -