- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk í átta tilraunum þegar lið hans EHV Aue tapaði fyrir Konstanz, 28:26, í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöldi. Sveinbjörn Pétursson náði sér ekki á strik í marki Aue og varði fjögur skot á þeim tíma sem hann stóð í marki liðsins. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari Aue um þessar mundir en liðið situr í sjötta sæti deildarinnar.
- Aroni Rafni Eðvarðssyni verður hinsvegar ekki kennt um tap Bietigheim á Hamm-Westafalen í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. Hann varði 17 skot, var með 40% hlutfallsmarkvörslu í leiknum. Það dugði ekki til og Bietigheim tapaði með fimm marka mun, 25:20. Bietigheim er í 11. sæti deildarinnar af 19 liðum. Hannes Jón Jónsson þjálfar Bietigheim út keppnistímabilið en flytur svo til Austurríkis og tekur við þjálfun Alpla Hard eins og handbolti.is greindi frá á fimmtudaginn.
- Vilhelm Poulsen, leikmaður Fram, skoraði eitt mark fyrir færeyska landsliðið í gær þegar það tapaði fyrir landsliði Tékklands, 28:20, í Brno í Tékklandi í undankeppni EM 2022 í handknattleik karla. Nicholas Satchwell, markvörður KA, stóð í marki færeyska landsliðsins sem átti erfitt uppdráttar í leiknum en tókst þó að minnka muninn í 18:15, snemma í síðari hálfleik. Allan Norðberg og Rögvi Dal Christiansen, leikmenn KA og Fram, skoruðu ekki mark. Færeyingar mæta Úkraínumönnum í Þórshöfn annað kvöld í undankeppni EM.
Elek Gábor, þjálfari ungverska kvennalandsliðsins í handknattleik verður vart með liðinu í forkeppni Ólympíuleikanna um næstu helgi. Gábor er veikur eftir að hafa smitast af kórónuveirunni. Ungverjar verða í erfiðum riðli með Rússum, Serbum og Kasakstönum. Tvær þjóðir tryggja sér ÓL-farseðil.