- Auglýsing -
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður kom ekkert við sögu þegar lið hennar Ringköbing Håndbold tapaði með 19 marka mun fyrir Viborg, 44:25, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld.
- Áhorfendur mega mæta í takmörkuðu mæli á nýjan leik á handknattleikskappleiki í Danmörku frá og með 16.janúar samkvæmt breytingum á sóttvarnarreglum þar í landi sem samþykktar voru í gær.
- Marko Mamic verður ekki með króatíska landsliðinu í fyrstu leikjum þess á EM. Mamic greindist með covid rétt áður en króatíska landsliðið fór að heiman áleiðis til Ungverjalands. Hann bætist þar með í hóp með Luka Cindric og Domagoj Duvnjak sem verða ekki með í fyrsta leik króatíska landsliðsins á mótinu gegn Frökkum í dag. Duvnjak er þar á ofan þjakaður af verkjum í baki.
- Franski landsliðsmaðurinn Elohim Prandi hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að hafa verið þar síðan á nýársnótt þegar ráðist var á hann og stunginn nokkrum sinnum með hnífi. Félagi hans hjá PSG greindi frá því í gær að Prandi hvílist heima næstu daga áður en hann hefur endurhæfingu. Vonir standa til þess að Prandi mæti út á handboltavöllinn eftir fáeina mánuði gangi endurhæfing að óskum.
- Fimm leikmenn pólska landsliðsins greindust smitaðir af covid í Ungverjalandi í gær í viðbót við tvo í fyrradag. Meðal þeirra smituðu er aðalmarkvörðurinn Adam Morawski. Ljóst að stór skörð hafa verið hoggin í pólska landsliðið sem á að mæta austurríska landsliðinu Bratislava annað kvöld.
- Auglýsing -