- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Elliði, Guðjón Arnar, Sveinbjörn, Nagy, Tumi, Anton, Örn, Aðalsteinn, þýski bikarinn, Lugi, Pereira

Elliði Snær Viðarsson gerir það gott með Gummersbach í Þýskalandi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Íslendingliðið Gummersbach heldur sinni siglingu í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Liðið í efsta sæti sem fyrr, átta stigum á undan Nordhorn sem er í öðru sæti þegar níu umferðir eru eftir. Gummersbach vann EHV Aue í gær, 35:31, á útivelli. Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari liðsins eins og áður.
  • Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk og átti fjórar stoðsendingar fyrir EHV Aue sem rekur lestina í deildinni með 17 stig. Sveinbjörn Pétursson stóð lengst af leiksins í marki EHV Aue og varði 10 skot, þar af eitt vítakast. 32%. Martin Nagy, fyrrverandi markvörður Vals, stóð um tíma í markinu hjá Gummersbach en náði sér ekki á strik. Varði eitt skot, 17%.
  • Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar samkvæmt opinberri tölfræðisíðu þýsku 2. deildinnar. Lið hans Coburg vann Elbflorenz frá Dresden, 29:23, á heimavelli. Þetta var sjötti sigur Coburg í röð og situr liðið í 14. sæti af 20 liðum með 26 stig og á auk þess 10 leiki eftir óleikna. Eftir því sem fram kom í tölvupósti sem handbolta.is barst í vikunni er óvíða á meðal liða 2. deildar betri umgjörð að finna í kringum kappleiki en hjá Coburg. Keppnishöll liðsins er nýleg og fara allir leikir fram á dúk.
  • Viðureign Emsdetten og Rosslauer sem fram átti að fara í gær var frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum Emsdetten. Tveir Íslendingar leika með Emsdetten, Anton Rúnarsson og Örn Östenberg Vésteinsson. Emsdetten situr í næst neðsta sæti 2. deildar með 20 stig.
  • Kadetten Schaffhausen, liðið sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari í Sviss og Óðinn Þór Ríkharðsson gengur til liðs við í sumar, tapaði fyrir Bern, 33:32, í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum um svissneska meistaratitilinn í handknattleik karla í gær. Leikið var í Bern. Staða liðanna er jöfn, hvort þeirra hefur einn vinning. Vinna þarf þrjá leiki til þess að öðlast sæti í undanúrslitum. Næsti leikur liðanna verður í Shaffhausen á fimmtudaginn.
  • Grétar Ari Guðjónsson varði níu skot í marki Nice, 29%, þegar liðið gerði jafntefli á útivelli við Besancon í 2. deildinni í Frakklandi í gærkvöld. Nice er í sjöunda sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir. Nice hefur aðeins misst flugið upp á síðkastið en á enn möguleiki á að ná einu af sex eftir sætunum og komst í umspil um sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili.
  • Úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar í handknattleik karla stendur yfir í dag og á morgun. Í dag mætast Kiel og Lemgo með Bjarka Má Elísson innanborðs í fyrri undanúrslitaleik dagsins. Síðari undanúrslitaleikurinn verður á milli SC Magdeburg, sem Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon leika með, og Erlangen. Ólafur Stefánsson er einn þjálfara Erlangenliðsins. Úrslitaleikurinn verður á morgun. Að vanda er leikið í stóru keppnishöllinni í Hamborg.
  • Sænska meistaraliðið Sävehof vann Lugi, 33:21, í oddaleik í átta liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í karlaflokki í gærkvöld. Leikið var í Partille, heimavelli Sävehof. Lið Lugi kom mikið á óvart með því að knýja fram oddaleik í fimm leikja rimmu eftir að hafa hafnað í áttunda sæti deildarinnar. Sävehof varð deildarmeistari.
  • Paulo Pereira landsliðsþjálfari Portúgal í handknattleik karla hefur tekið að sér að stýra Kuwait Sports Club næstu tvo mánuði, eða út keppnistímabilið þar í landi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -