- Auglýsing -
- Elliði Snær Viðarsson skoraði fjögur mörk í gærkvöld þegar lið hans, Gummersbach, vann Bayer Dormagen, 35:25, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari liðsins sem er í 3. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir N-Lübbecke og HSV Hamburg. Gummersbach á leik til góða á N-Lübbecke en aðeins tvö efstu liðin fara upp úr deildinni í vor. Gummersbach á fjóra leiki eftir.
- Í fyrrakvöld unnu Aron Rafn Eðvarðsson og félagar í Bietigheim góðan sigur á Ferndorf, 28:27, á útivelli í þýsku 2. deildinni. Ferndorf liðið hefur vart tapað leik vikum saman. Aron Rafn lék stóran hluta leiksins í marki Bietigheim og varði fimm skot, þar af eitt vítakast. Bietigheim situr í fimmta sæti deildarinnar.
- Portúgalski landsliðsmaðurinn Alexis Borges vill losna undan samningi við Montpellier þótt hann eigi enn tvö ár eftir af honum. Óyndi mun hafa gripið Borges sem vill halda heim. Hermt er að honum standi til boða samningur við Benfica frá og með næsta keppnistímabili.
- RK Vardar varð í fyrrakvöld meistari í handknattleik karla í Norður-Makedóníu eftir að hafa unnið erkifjendurna í RK Metalurg með 12 marka mun, 39:27. Þetta er í 14. sinn sem RK Vardar verður landsmeistari karla í Norður-Makedóníu og sjötta árið í röð. Fyrst vann liðið árið 1999.
- Sænski handknattleiksmaðurinn, Jonas Källman, lék sinn síðasta leik á heimavelli ungverska liðsins Pick Szeged í fyrrakvöld þegar liðið vann Veszprém, 31:28, í fyrri úrslitaleik liðanna um meistaratitilinn. Källman er að ljúka sínu áttunda keppnistímabili með Pick Szeged en hann er fertugur. Källman flytur heim til Svíþjóðar í sumar. „Ég er þakklátur fyrir að leika fyrir framan áhorfendur í síðasta heimaleiknum,“ sagði Källman m.a. í leikslok en 2.500 áhorfendur voru í íþróttahöllinni í Szeged á leiknum.
- Auglýsing -