- Auglýsing -
- Elliði Snær Viðarsson skoraði sex mörk í jafnmörgum tilraunum og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur þegar lið hans Gummersbach vann Bergischer HC, 37:34, í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í gær. Leikurinn fór fram á heimavelli Gummersbach. Hákon Daði Styrmisson skoraði ekki mark fyrir Gummersbach-liðið sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Bergischer HC sem féll niður um eitt sæti, niður í níunda, með tapinu í gær. Gummersbach er nú í áttunda sæti. Hvort lið hefur 30 stig.
- Rúnar Sigtryggsson þjálfari SC DHfK Leipzig fagnaði sigri með leikmönnum sínum á Wetzlar, 38:29, á heimavelli í gær. SC DHfK Leipzig er í 13. sæti þýsku 1. deildarinnar með 27 stig. Viggó Kristjánsson er meiddur og leikur ekki með Leipzig-liðinu á ný fyrr en í haust.
- Danska handknattleiksliðið Esbjerg og sænska handknattleikssambandið staðfestu í gær að Tomas Axnér þjálfari sænska kvennalandsliðsins hafi verið ráðinn þjálfari Esbjerg frá og með sumrinu 2024. Axnér heldur áfram að þjálfa sænska landsliðið samhliða starfinu hjá Esbjerg. Samningur Axnér tekur gildi sumarið 2024 og gildir til þriggja ára.
- Auglýsing -