- Auglýsing -
- Elliði Snær Viðarsson, leikmaður Gummersbach og íslenska landsliðsins, er í liði 22. umferðar í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Elliði Snær fór á kostum með Gummersbach þegar liðið vann Eisenach á sunnudaginn á heimavelli, 28:25. Skoraði Eyjamaðurinn m.a. sex mörk í sjö skotum.

- Línumaðurinn Valdimar Sigurðsson er orðinn gjaldgengur með Gróttu í Olísdeild karla. Valdimar lék lengi með Fram en tók þátt í tveimur leikjum með Kríu á síðasta keppnistímabili. Valdimar hefur æft með Gróttu upp á síðkastið og gæti verið klár í slaginn með Gróttu í kvöld gegn HK í Olísdeildinni. Liðin leiða saman hesta sína í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi klukkan 20.
- Ída Margrét Stefánsdóttir sem lánuð var af Val til Gróttu 6. janúar hefur verið kölluð til baka úr láni. Hún varð gjaldgeng á nýjan leik með Val um 20. febrúar.
- Sömu sögu er að segja af Margrét Björg Castillo sem Fram lánaði til Aftureldingar fyrir um mánuði. Margrét Björg er nýkomin aftur í herbúðir Framara.
- Austurrísku meistararnir, Alpla Hard sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, unnu i gær West Wien með fimm marka mun í Vínarborg, 30:25. Þar með komst Hard-liðið í efsta sæti deildarinnar á nýjan leik. Hard er með 27 stig eftir 16 leiki og er stigi á undan Krems og tveimur fyrir ofan Aon Fivers til viðbótar við að eiga leik til góða.
- Tveir færeyskir handknattleiksmenn sem leika hér á landi eru í 16-manna landsliðshópi færeyska karlalandsliðsins sem valinn var í gær. Annarsvegar er það Nikolas Satchwell, markvörður KA, og hinsvegar örvhenta skyttan og markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar, Vilhelm Poulsen hjá Fram. Færeyingar leika tvisvar við Hvít-Rússa í fyrri umferð umspilsins fyrir HM 16. og 20. mars.
- August Pedersen, vinstri hornamaður Drammen, hefur samið við þýska liðið Flensburg. Pedersen er ætlað að koma í stað Svíans Hampus Wanne sem rær á önnur lið í sumar eins og kom fram á handbolta.is í gær.
- Auglýsing -