- Auglýsing -
- Elmar Erlingsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar þegar lið hans HSG Nordhorn-Lingen vann stórsigur á HSG Konstanz, 35:23, á útivelli í 2. deild þýska handknattleiksins í gærkvöld. HSG Nordhorn-Lingen fór a.m.k. í bili upp í sjötta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 18 leiki. Liðin í næstu sætum á eftir eru einu og tveimur stigum á eftir og eiga ekki leik fyrr en í dag og á morgun.
- Grétar Ari Guðjónsson varði 10 skot, þar af tvö vítaköst, þegar lið hans US Ivry tapaði fyrir Toulouse, 31:27, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld þegar keppni hófst á nýjan leik eftir HM-hlé. Grétar Ari stóð í marki Ivry í 44 mínútur. US Ivry er í neðsta sæti deildarinnar með þrjú stig. Toulouse, sem mætti FH í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrir áramótin, situr í fjórða sæti með 21 stig.
- Veszprém vann stórsigur á Dabas, 48:24, á útivelli þegar keppni hófst á nýjan leik í efstu deild ungverska handknattleiksins í gær. Aron Pálmarsson var í leikmannahópi Veszprém en Bjarki Már Elísson var fjarverandi vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu íslenska landsliðsins á heimsmeistramótinu í síðasta mánuði. Hugo Descat, sem lék ekki með Frökkum á HM vegna meiðsla, hefur jafnaði sig. Descat var markahæstur leikmanna Veszprém með níu mörk.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði ekki fyrir Alpla Hard þegar það gerði jafntefli, 30:30, á heimavell í gær í austurrísku 1. deildinni í handknattleik. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard sem er efst í deildinni með 23 stig eftir 15 leiki. Füchse hefur einnig 23 stig og á leik til góða. Krems er í þriðja sæti með 21 stig að loknum 14 leikjum.