- Auglýsing -
- Elvar Ásgeirsson skoraði fimm mörk og var næst markahæstur þegar Ribe-Esbjerg lagði Fredericia HK, 32:30, í æfingaleik í gær. Keppni í dönsku úrvalsdeildinni í karlaflokki hefst á miðvikudaginn. Upphafsleikur Fredericia HK, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, verður þó ekki fyrr en eftir viku gegn Bjerringbro-Silkeborg. Daginn eftir mæta Elvar og félagar fyrst til leiks. Þeir taka á móti SønderjyskE.
- Uppselt er á vináttuleik Danmerkurmeistara Aalborg Håndbold og þýska liðsins Flensburg sem fram fer í keppnishöllinni í Álaborg í kvöld. Á sjötta þúsund aðgöngumiða seldust, þeir síðustu í fyrradag. Ágúst Elí Björgvinsson markvörður tekur þátt í leiknum en hann var leigður til Aalborg Håndbold á dögunum vegna meiðsla Niklas Landin.
- Á sunnudaginn leikur Aalborg Håndbold við Skjern í Meistarakeppninni í Danmörku. Viðureignin fer fram í Randers ásamt viðureign Odense Håndbold og Esbjerg í kvennaflokki.
- Danski handknattleiksmaðurinn Henrik Toft Hansen hefur ákveðið að leggja keppnisskóna á hilluna góðu næsta sumar. Hansen lék árum saman með danska landsliðinu og nokkrum öflugum félagsliðum í Evrópu. Hann er 38 ára gamall hefur leikið með Mors-Thy Håndbold síðustu tvö ár. René Toft Hansen, eldri bróðir Henriks, sem einnig var landsliðsmaður hætti keppni í vor.
- Auglýsing -