- Auglýsing -
- Eva Gísladóttir hefur skrifað undir nýjan samning við handknattleiksdeild FH. Eva, sem er örvhent skytta og leikmaður u16 ára landsliðs Íslands, lék tíu leiki með FH í Grill66-deild kvenna á síðasta tímabili.
- Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS (Court of Arbitration for Sport) felldi á dögunum tímamótadóm gegn rússneska knattspyrnusambandinu sem áfrýjaði til CAS ákvörðun FIFA og UEFA að banna rússneskum landsliðum og félagsliðum að taka þátt í alþjóðlegri keppni. CAS staðfesti ákvörðun FIFA og UEFA. Þar með er ljóst að rússnesk íþróttayfirvöld verða að sætta sig við orðinn hlut og sitja heima. Dómur CAS styrkir m.a. niðurstöðu áfrýjunardómstóls Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í síðasta mánuði sem vísaði frá áfrýjun rússneska handknattleikssamabandsins vegna keppnisbanns rússneskra handknattleikslandsliða og félagsliða á öllum mótum á vegum EHF vegna innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar.
- Yahia Omar, örvhenta stórskyttan og leikmaður Veszprém í Ungverjalandi, var valinn mikilvægasti leikmaður Afríkukeppninnar í handknattleik karla sem lauk í Kaíró með sigri Omar og félaga í egypska landsliðinu. Egyptaland varð Afríkumeistari í áttunda sinn. Omar var einnig valinn besta hægri skytta mótsins. Ali Zein var valinn í úrvalslið Afríkumótsins í fjórða sinn í röð.
- RK PPD Zagreb staðfesti í gær að félagið hafi samið við rússneska hornamanninn Timur Dibirov en orðrómur þess efnis var á kreiki fyrir helgina. Dibirov, sem er 39 ára gamall, hefur leikið með Vardar síðustu níu ár og gert það gott. M.a. varð hann fjórði leikmaðurinn til þess að skora 1.000 mörk í Meistaradeild Evrópu og vann keppnina í tvígang með liðinu. Samningur Rússans við Zagrebliðið er til eins árs.
- Auglýsing -