- Auglýsing -
- Handknattleiksmaðurinn Eyþór Vestmann hefur ákveðið að rifa seglin og hætta í handknattleik eftir ágætan feril m.a. með Aftureldingu, Stjörnunni, ÍR og Kórdrengjum. Með síðastnefnda liðinu hefur Eyþór leikið með síðustu tvö keppnistímabil.
- Rúnar Kárason stórskytta ÍBV skoraði eitt mark úr vítakasti gegn Stjörnunni í viðureign liðanna í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í TM-höllinni í gærkvöld. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi að Rúnar skorar úr vítakasti í kappleik nema fyrir þær sakir að þetta var fyrsta mark hans úr vítakasti í deildinni á tímabilinu.
- Danska handknattleiksliðið Fredericia Håndboldklub, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Einar Þorsteinn Ólafsson leikur með, gerði sér lítið fyrir og vann Bjerringbro/Silkeborg með tveggja marka mun, 35:33, í JYSK Arena, heimavelli Bjerringbro/Silkeborg í gærkvöld í annarri umferð annars riðils átta liða úrslita um danska meistaratitilinn í handknattleik.
- Fredericia Håndboldklub hefur þar með tvö stig og getur gert atlögu að öðru sæti riðilsins og þar með undanúrslitum um danska meistaratitilinn, ef fram heldur sem horfir. Einar Þorsteinn skoraði ekki mark í leiknum í gær en tók til hendinni í vörninni, að vanda.
- Ásgeir Snær Vignisson og félagar í Helsingborg mæta Karlskrona í oddaleik í umspili um sæti í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik eftir að hafa tapað fjórða leiknum í Karlskrona í gærkvöld, 31:24. Liðin hafa unnið tvær viðureignir hvort. Oddaleikurinn verður í Helsingborg á föstudagskvöld. Ásgeir Snær skoraði þrjú mörk í leiknum í gær.
- Sveinn Andri Sveinsson var ekki í leikmannahópi Empor Rostock þegar liðið tapaði í gærkvöld fyrir Eintracht Hagen, 37:25, í 2. deild þýska handknattleiksins. Empor Rostock er sem fyrr í næsta neðsta sæti með 12 stig eftir 30 leiki. Liðið á átta leikjum eftir ólokið og ljóst að staða þess er slæm.
- HC Motor tapaði fyrir Tusem Essen á heimavelli, einnig í 2. deild þýska handknattleiksins í gær, 37:27. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari úkraínsku meistaranna sem eru gestalið í deildinni á þessari leiktíð. HC Motor er í fjórða neðsta sæti.
- Henrik Signell, sem verið hefur þjálfari karlaliðs IFK Skövde verður næsti þjálfari kvennalandsliðs Suður Kóreu. Eftirmaður Signell hjá Skövde verður Jónatan Þór Magnússon eins og kom fram í fréttum fyrir nokkrum vikum. Signell tekur við af Dananum Kim Rasmussen sem gafst upp í vetur eftir forsvarsmenn handknattleikssambands Suður Kóreu vildu hafa meiri áhrif en góðu hófi gegndi á þjálfun landsliðsins, að mati Danans. Suður Kórea er Asíumeistari og hefur árum saman verið fremsta landslið Asíu í handknattleik kvenna. Fyrsta verkefni Signell verður Asíukeppnin í sumar þar sem þátttökuréttur í forkeppni Ólympíuleikanna verður í húfi.
- Auglýsing -