Til stendur að KA/Þór mæti ítalska liðinu Jomi Salerno í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik um og eftir miðjan nóvember. Lið Jomi Salerno átti að leika við Erice á Sikiley á laugardaginn. Leiknum var hinsvegar frestað rétt í þann mund þegar leikmenn Jomi Salerno voru að leggja af stað en þá bárust fregnir um staðfest kórónuveirusmit í herbúðum Erice.
Ísraelsmenn, sem væntanlegir eru hingað í næsta mánuði til leiks við íslenska landsliðið í handknattleik karla í undankeppni EM hafa valið landsliðshóp sinn. Helmingur leikmanna í hópnum leika með félagsliðum í Ísrael en aðrir eru utan heimalandsins, flestir í Þýskalandi.
Ekkert hefur enn verið leikið í ísraelsku deildarkeppninni vegna óviðunandi ástands í kórónuveirusmitum og óvíst hvernig gengur hjá landsliðinu að æfa á heimavelli ef marka má það sem hægt að stauta sig í gegnum á heimasíðu ísraelska handknattleikssambandsins.
Til stendur að landsliðið komi saman í þessari viku í Tel Aviv og þá án þeirra sem leika utan heimalandsins. Ef leyfi fæst til æfinga ætlar landsliðsþjálfarinn að hefja æfingar með fjölmennari hópi leikmanna sem leika með félagsliðum í Ísrael.
Ísraelsmenn eiga að mæta Portúgölum 4. nóvember í Portúgal og íslenska landsliðinu í Laugardalshöll þremur dögum síðar.