- Auglýsing -
- Keppni í þýsku 1. deildinni í handknattleik hefst ekki fyrr en eftir rúman mánuð. Þrátt fyrir það er þegar byrjað að fresta leikjum. Í gær var sagt frá því að viðureign Evrópumeistara SC Magdeburg og THW Kiel, einum af stórleikjum tímabilsins, hafi verið frestað vegna þátttöku Magdeburg í heimsmeistarakeppni félagsliða sem fram fer í lok september og byrjun október í Kaíró. Evrópumeistararnir taka þátt í mótinu.
- Króatíski handknattleiksmaðurinn Marko Kopljar, sem lagði skóna á hilluna í vor, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Potsdam sem féll úr efstu deild þýska handknattleiksins í vor. Þetta er fyrsta starf Kopljar í þjálfun.
- Loks hefur verið staðfest að svissneski línumaðurinn Lukas Laube verður liðsmaður THW Kiel á næstu leiktíð. Félagið hefur keypt upp samning hans við Stuttgart og samið til tveggja ára. Ekki hefur verið staðfest hversu mikið Kiel greiddi fyrir Laube en nefndar hafa verið upphæðir frá 100 – 200 þúsund evrum. Laube samdi til tveggja ára. Hann verður um leið fyrsti Svisslendingurinn til að leika með THW Kiel.
- Línumaðurinn Timmy Petit verður nýr liðsfélagi Þorsteins Leó Gunnarssonar hjá FC Porto á næstu leiktíð. Petit samdi við Porto í gær. Hann lék síðast með Limoges í Frakklandi.
- Benfica, sem Stiven Tobar Valencia leikur með, hefur samið við Javi Rodriguez, ungan leikstjórnanda Barcelona.
- Einnig hefur Benfica samið við danska handknattleiksmanninn Kristian Olsen. Hann var á síðustu leiktíð næst markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar með 196 mörk auk þess að gefa 61 stoðsendingu. Olsen kemur til Benfica frá Svíþjóðarmeisturum Ystads IF.
- Danski markvörðurinn Sebastian Frandsen er sagður ætla að kveðja Fredericia HK sumarið 2026 og ganga til liðs við Bjerringbro/Silkeborg. Frandsen var hjá Bjerringbro/Silkeborg frá 216 til 2018 en fór þá til TTH Holstebro og síðan til Porto uns hann flutti aftur til Danmerkur 2023 og skrifaði undir þriggja ára samning við Fredericia HK.
- Spænski handknattleiksmaðurinn Imanol Garciandía hefur ákveðið að yfirgefa Pick Szeged í Ungverjalandi sumarið 2026 og ganga til liðs við Nantes í Frakklandi. Garciandía hefur verið einn mikilvægasti leikmaður Pick Szeged.
- Auglýsing -