- Auglýsing -
- Rubén Garabaya hefur verið ráðinn þjálfari Eurofarm Pelister, meistaraliðsins Norður Makedóníu í karlaflokki auk þess sem liðið er eitt sextán þátttökuliða í Meistaradeild Evrópu. Garabaya tekur við af Raúl Alonso sem á dögunum tók við þjálfun Leipzig af Rúnari Sigtryggssyni.
- Garabaya er Spánverji eins og forveri hans og lék um árabil með spænska landsliðinu. Garabaya á m.a. gullverðlaun frá HM 2005 og bronsverðlaun frá Ólympíuleikunum 2008. Hann var síðast þjálfari Blendio Sinfín á Spáni.
- Danski markvörðurinn Rasmus Henriksen er mættur á ný til æfingar undir stjórn Arnórs Atlasonar hjá danska úrvalsdeildarliðinu TTH Holstebro eftir nærri árs fjarveru vegna veikinda.
- Danski línumaðurinn Lukas Jørgensen þverneitaði að ganga til liðs við One Veszprém í sumar eins og félagið hafði áhuga á. Jørgensen vill ljúka samningi sínum hjá Flensburg sem rennur út eftir ár. Eftir það flytur kappinn til Ungverjalands og hefur æfingar og leiki með One Veszprém.
- Hinn hæfileikaríki danski handknattleiksmaður Thomas Arnoldsen er kominn til æfinga hjá meistaraliðinu Aalborg Håndbold eftir veikindi. Hann fór í frí frá handbolta í febrúar vegna andlegs álags en mætti til leiks aftur í vor en staldraði stutt við þegar ljóst var að hann hafði ekki jafnað sig. Arnoldsen er 23 ára gamall og eitt mesta efni danska karlalandsliðsins.
- Blanka Böde-Bíró markvörður ungverska landsliðsins og bikarmeistara FTC fæddi son í byrjun vikunnar. Þetta er hennar fyrsta barn.
- Filip Jicha þjálfari THW Kiel er mættur til starfa eftir sumarleyfi. Hann sendi stuðningsmönnum félagsins kveðjur á samfélagsmiðlum og sagðist hlakka til keppnistímabilsins sem væri framundan. Miklar vangaveltur hafa verið um það síðustu daga hvort Jicha sé á útleið hjá félaginu eftir tímabilið og ýmsir nefndir til sögunnar sem hugsanlegir eftirmenn. Jicha tók við þjálfun THW Kiel þegar Alfreð Gíslason lét af störfum 2019 eftir 11 sigursæl ár.
- Auglýsing -