- Auglýsing -
- Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar í stórsigri SC Magdeburg á HC Erlangen, 30:19, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Ómar Magnússon skoraði þrjú mörk og átti einnig þrjár stoðsendingar.
- Spænski markvörðurinn Sergey Hernández fór á kostum í marki Magdeburg, varði 15 skot, 44%.
- Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk og var markahæstur leikmanna HC Erlangen. Einnig gaf hann fimm stoðsendingar.
- Magdeburg er í sjötta sæti með 33 stig eftir 22 leiki. Füchse Berlin og MT Melsungen eru efst með 40 stig hvort lið en hafa lokið þremur leikjum fleiri en Magdeburg. HC Erlangen er næst neðst með níu stig.
- Kadetten Schaffhausen, sem Óðinn Þór Ríkharðsson landsliðsmaður leikur með, er komið í vænlega stöðu gegn Wacker Thun eftir annan sigur í átta liða úrslitum úrslitakeppni svissnesku A-deildarinnar í gærkvöld, 28:21. Leikið var í Thun.
- Óðinn Þór var að vanda atkvæðamikill í leiknum í gær. Hann skoraði m.a. sex mörk, þar af þrjú úr vítaköstum.
- Leikmenn Kadetten Schaffhausen geta tryggt sér sæti í undanúrslitum á morgun með sigri í þriðja leiknum á heimavelli.
- Elvar Ásgeirsson fór á kostum með Ribe-Esbjerg gegn TTH Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni í fyrrakvöld. M.a. gaf fréttavefurinn hbold.dk Mosfellingnum 10 í einkunn. Það er hæst einkunn sem vefsíðan gefur leikmönnum. Elvar tók hressilega á í vörninni auk þriggja marka úr þremur skotum og fimm stoðsendinga.
- Ágúst Elí Björgvinsson markvörður og samherji Elvars fékk átta í einkunn fyrir sína framgöngu í leiknum, 45%, markvörslu, fimm varin skot, þar af tvö vítaköst. Ágúst Elí hefur lengi verið útsjónarsamur við að verja vítaköst.
- Auglýsing -