- Grétar Ari Guðjónsson átti frábæran leik með Sélestat í gær þegar liðið vann Sarrebourg, 31:22, á útivelli í næst efstu deild franska handboltans í gærkvöld. Hafnfirðingurinn varði 13 skot í leiknum, 37,1%. Sélestat er í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig að loknum níu leikjum.
- Dagur Gautason skoraði þrjú mörk fyrir ØIF Arendal þegar liðið vann stórsigur á Haslum HK, 32:19, á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í gær. Hafþór Már Vignisson var ekki í leikmannahópi ØIF Arendal að þessu sinni. ØIF Arendal er í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir 10 leiki, fjórum stigum á eftir Kolstad sem er efst.
- Eftir tap í bikarkeppninni á dögunum þá risu leikmenn Volda upp á afturlappirnar í gær og unnu Junkeren, 22:17, á útivelli í næst efstu deild norska handboltans. Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði sex mörk fyrir Volda sem er í öðru sæti deildarinnar.
- Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu þegar lið hans Ribe-Esbjerg tapaði fyrir SönderjyskE, 36:27, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Ágúst Elí Björgvinsson náði sér ekki á strik í þann stutta tíma sem hann fékk í marki Ribe-Esbjerg. Ágúst varði eitt skot af sjö sem hann fékk á sig. Ribe-Esbjerg er í fimmta sæti deidarinnar.
- Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, var ekki í leikmannahópi PAUC í gær þegar liðið tapaði fyrir Saint-Raphaël, 29:28, í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Leikurinn fór fram á heimavelli Saint-Raphaël.
- Alpla Hard, liðið sem Hannes Jón Jónsson þjálfar í Austurríki, komst áfram í bikarkeppninni í gær. Alpla Hard lagði Handball Tirol, 40:31, á útivelli.
- Bjarki Finnbogason skoraði þrisvar sinnum fyrir Anderstorps SK í tíu marka tapi liðsins í heimsókn til Skånela IF, 35:25, í næst efstu deild (Allsvenskan) sænska handknattleiksins í gær. Anderstorps SK er í sjöunda sæti af 14 liðum með 10 stig að loknum níu leikjum.
- Auglýsing -