- Auglýsing -
- Patrick Groetzki leikur vart meira með Rhein-Neckar Löwen á keppnistímabilinu eftir að hafa meiðst á æfingu. Ekki var greint frá hversu alvarleg meiðsli hans eru en vonir standa til þess að Groetzki verði tilbúinn í slaginn þegar þýska landsliðið hefur undirbúning sinn fyrir þátttöku á Ólympíuleikunum.
- Í gær gafst annar maður upp á samstarfinu við Hassan Moustafa forseta alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Tono Houlin sem hefur starfað í dómara- og reglugerðanefnd Alþjóða handknattleikssambands hefur fengið nóg. Houlin fylgir í kjölfarið á landa sínum Ramon Gallego, formanni nefndarinnar, sem hefur sagt sig frá öllum störfum innan IHF eins og handbolti.is greindi frá í fyrradag. Houlin hefur starfað fyrir IHF í 12 ár.
- Houlin segist standa með Gallego í einu og öllu og þar af leiðandi sjái hann sér ekki fært að vinna áfram fyrir IHF, eftir því sem fram kemur í frétt TV2 í Danmörku.
- Norska landsliðskonan Linn Jørum Sulland ætlar að hætta í handknattleik í sumar. Hún leikur sína síðustu leik með Vipers þegar liðið tekur þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Búdapest um helgina. Sulland verður 37 ára í sumar. Hún á að baki 176 landsleiki fyrir Noreg og skorað í þeim leikjum 525 mörk. Sulland hefur leikið með Vipers síðustu fimm ár en var áður m.a. í herbúðum Larvik og Györ í Ungverjalandi.
- Peter Portengen var sagt upp störfum sem þjálfari þýska liðsins Emsdetten í gær eftir örfáa mánuði í starfi en hann var ráðinn skömmu eftir áramótin. Emsdetten er í bráðri fallhætti í þýsku 2. deildinni. Sascha Bertow tekur tímabundið við þjálfun liðsins. Anton Rúnarsson leikmaður Vals gengur til liðs við Emsdetten í sumar eins og áður hefur komið fram.
- Auglýsing -