- Auglýsing -
- Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia Håndboldklub unnu Ribe-Esbjerg með fjögurra marka mun, 33:29, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Einar Þorsteinn Ólafsson átti eitt markskot sem geigaði og var einu sinni vísað af leikvelli en hann leikur með Fredericia Håndboldklub.
- Ágúst Elí Björgvinsson varði 11 skot, 26%, og skoraði eitt mark fyrir Ribe-Esbjerg. Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Arnar Birkir Hálfdánsson var ekki í leikmannahópi Ribe-Esbjerg sem situr í 9. sæti þegar liðið á tvo leiki eftir af deildarkeppninni. Átta efstu komast í úrslitakeppnina um meistaratitilinn.
- Fredericia Håndboldklub er á hinn bóginn öruggt um sæti í úrslitakeppninnar. Liðið er í sjöunda sæti með 26 stig, er sex stigum á undan Holstebro sem er í áttunda sæti með 20 stig eins og Ribe-Esbjerg en á leik til góða.
- Gedeón Guardiola fyrirliði spænska landsliðsins hefur samið við HC Erlangen í Þýskalandi. Hann kemur til félagsins í sumar eftir nokkurra ára veru hjá Lemgo og þar áður með Rhein-Neckar Löwen.
- Þýski handknattleiksþjálfarin Rolf Brack lést í gær 69 ára gamall. Brack hafði nærri í fjóra áratugi þjálfað handknattleikslið. Lengst af var hann þjálfari Balingen–Weilstetten, frá 2004 til ársloka 2013. M.a. var Brack einnig þjálfari hjá Göppingen, Erlangen, Pfullingen. Síðast var hann þjálfari DJK Rimpar í næst efstu deild en hætti eftir árs veru 2021. Brack var þjálfari karlalandsliðs Sviss frá 2013 til 2016.
- Í gær var greint frá því að Reiner Witte fyrrverandi landsliðsmarkvörður Þýskalands hafi látist á föstudaginn 68 ára gamall eftir veikindi undangengin ár. Witte var varaforseti þýska handknattleikssambandsins frá 2002 til 2008 og síðan forseti þýsku deildarkeppninnar, sem rekin er sem sjálfstætt fyrirtæki, frá 2008 til 2014 þegar hann lét af störfum að eigin ósk.
- Danska landsliðskonan Mia Rej hefur slitið krossband í þriðja sinn á ferlinum. Félag hennar, Odense Håndbold, sagði frá þessu í gær að Rej hafi þegar gengist undir aðgerð til að fá bót á. Rej meiddist fyrir nokkru síðan þegar hún var að hefja keppni á ný vegna meiðsla í hné sem hún varð fyrir í október.
- Auglýsing -