- Auglýsing -
- Sænska handknattleiksstjarnan Isabelle Gulldén hefur samið við norska meistaraliðið Vipers Kristiansand og gengur til liðs við félagið í sumar þegar núverandi samningur hennar við Brest Bretagne í Frakklandi rennur út. Hin 31 árs gamla Gulldén tilkynnti að loknu EM í desember að hún gæfi ekki oftar kost á sér í sænska landsliðið.
- Hrvoje Horvat, nýráðinn landsliðsþjálfari Króata í handknattleik, lét það verða sitt fyrsta verk eftir að hann tók við starfinu að reka sjúkraþjálfara karlalandsliðsins. Horvat segir sjúkraþjálfarann hafa gengið í lið með Luka Cindric á heimsmeistaramótinu. Cindric hafi gert sér upp meiðsli og sjúkraþjálfarinn hafi tekið þátt í blekkingunni. Horvat segir að viðhorf Cindric til landsliðsins sé dapurlegt. Ljóst er að þar á bæ þarf að hreinsa loftið áður en Cindric tekur þátt í forkeppni Ólympíuleikanna með króatíska landsliðinu í næsta mánuði.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar í Kadetten Schaffhausen unnu Zürich á heimavelli í gærkvöld, 32:29, í svissnesku úrvalsdeildinni í handknattleik. Þetta var þriðji leikur Kadetten í þessari viku en á þriðjudag og miðvikudag lék liðið við Rhein-Neckar Löwen í Evrópudeildinni. Kadetten er í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig eftir 16 leiki. Pfadi Winterthur er efst með 28 stig en hefur lokið 18 leikjum.
- Auglýsing -