- Auglýsing -
- Gunnar Valur Arason og Ragnar Áki Ragnarsson hafa fengið félagaskipti frá Vængjum Júpíters yfir til liðs Kórdrengja sem leikur í Grill66-deild karla. ÍR-ingurinn Viktor Bjarki Ómarsson hefur verið lánaður til Kórdrengja út leiktíðina.
- Einnig hefur Brynjar Jökull Guðmundsson fengið leikheimild með Víkingi. Brynjar Jökull lék með Vængjum Júpíters á síðasta tímabili en ákvað í lok júní að færa sig um set yfir til Víkinga. Brynjar Jökull hefur verið ötull á handknattleiksvellinum eftir að ferli hans sem keppnismaður á skíðum lauk en m.a. keppti hann í svigi og stórsvigi á Vetrarólympíuleikunum í Sochi 2014.
- Ólafur Atli Malmquist Hulduson hefur verið lánaður frá ÍR til Fjölnis sem leikur í Grill66-deildinni. Ólafur, sem er bróðir Gunnars Kristins leikmanns Aftureldingar, hefur leikið með ÍR um árabil.
- Bjarki Már Elísson lét eitt mark duga og tvö markskot þegar ungverska liðið Veszprém vann nauman sigur á GOG, 31:30, í fjórðu umferð Meistaradeildar karla í handknattleik en leikið var á Fjóni. Veszprém hefur átta stig eftir fjóra leiki A-riðli keppninnar.
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fjögur mörk og Ásdís Guðmundsdóttir eitt þegar Skara HF vann Kungälv HK, 31:30, á útivelli í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í handknattleik í gærkvöld. Síðari leikurinn verður á heimavelli Skara miðvikudaginn 19. október. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, sem gekk í fyrradag til liðs við Skara, er ekki gjaldgeng með liðinu í bikarkeppninni eftir að hafa leikið með Önnreds á fyrri stigum.
- Harpa Rut Jónsdóttir og Sunna Guðrún Pétursdóttir voru í sigurliði GC Amicitia Zürich í gærkvöld þegar liðið vann HSC Kreuzlingen, 30:23, á heimavelli í fjórðu umferð svissnesku A-deildarinnar í handknattleik. GC Amicitia Zürich er komið í þriðja sæti deildarinnar með þessu sigri. Því miður reyndist ómögulegt að finna nákvæma tölfræði úr leiknum þegar leitað var seint í gærkvöld.
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir Volda þegar liðið tapaði með sjö marka mun, 25:18, fyrir Sola á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Rakel Sara Elvarsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir skoruðu ekki fyrir Volda sem er í næst neðsta sæti deildarinnar með tvö stig eftir fimm leiki.
- Axel Stefánsson og leikmenn hans í Storhamar töpuðu fyrir Noregs- og Evópumeisturum Vipers, 35:30, í norsku úrvalsdeild kvenna í gærkvöld. Leikið var í Kristjánssandi. Vipers er efst með átta stig eftir fjóra leiki. Storhamar hefur hinsvegar ekki náð sér á strik og er með 3 stig að loknum fjórum leikjum í 10. og þriðja neðsta sæti.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði ekki fyrir Haslum þegar liðið tapaði fyrir Fjellhammer, 31:24, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Erni var einu sinni vísað af leikvelli. Haslum hefur farið brösulega af stað og er aðeins með tvö stig eftir fimm leiki í næst neðsta sæti.
- Auglýsing -