- Auglýsing -
- Þýski landsliðsmaðurinn Kai Häfner greindi frá því í gær að hann ætli ekki að gefa kost á sér í landsliðið að Ólymíuleikunum loknum. Häfner er 35 ára gamall leikmaður Stuttgart og örvhent skytta. Hann kom inn í þýska hópinn á elleftu stundu eftir að Franz Semper heltist úr lestinni vegna meiðsla. Fjórtán ár eru liðin síðan Häfner lék sinn fyrsta landsleik. Hann var m.a. í sigurliði Þýskalands á EM 2016 og í bronsliðinu á ÓL síðar sama ár.
- Argentínumenn urðu fyrir áfalli í gær þegar reyndasti leikmaður landsliðsins og fyrirliði þess, Diego Simonet, varð að draga sig út úr liðinu vegna meiðsla. Argentína mætir Danmörku í dag í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna.
- Miklos Rosta varð einnig að draga sig til hlés í ungverska landsliðinu. Hans sæti tók Pedro Rodriguez.
Stjórnendur þýska meistaraliðsins SC Magdeburg horfa í kringum sig eftir hægri hornamanni þessa dagana. Tim Hornke aðal hægri hornamaður liðsins meiddist í leik með þýska landsliðinu á Ólympíuleikunum og verður frá keppni í einhverja mánuði. Á meðan vantar þýsku meistarana fyrsta flokks hægri hornamann. Þeir liggja ekki á lausu mánuði áður en deildarkeppnin hefst víðast hvar í Evrópu.
- Manuel Zehnder markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð stendur enn í þrefi við HC Erlangen vegna kröfu sinnar um að samningi hans við félagið verði rift. Zehnder tapaði málinu á dómstigi hjá þýska handknattleikssambandinu. Áfram heldur þrefið og verður það tekið fyrir á öðru dómstigi á morgun, 1. ágúst.
- Zehnder var lánsmaður hjá Eisenach á síðustu leiktíð og blómstraði með nýliðunum. Um leið og hann mætti á ný í herbúðir HC Erlangen eftir að leiktíðinni lauk greip Zehnder mikið óyndi með þeim afleiðingumm að hann óskaði eftir að verða leystur undan samningi. Forráðamenn HC Erlangen voru og eru ekki tilbúnir til þess. Zehnder á ár eftir af samningi sínum.
- Auglýsing -