- Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari Nordsjælland hafði betur gegn Arnóri Atlasyni og liðsmönnum Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær, 34:24. Leikurinn fór fram í Holstebro. Nordsjælland hefur þar með komið sér upp í 10. sæti deildarinnar með 10 stig að loknum 13 leikjum. Hinsvegar er Holstebro í 12. sæti með 9 stig. Nánar er hægt að skoða stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og fleiri deildum Evrópu hér.
- Harpa Rut Jónsdóttir og samherjar í GC Amicitia Zürich komust áfram í bikarkeppninni í Sviss í gærkvöld með öruggum sigri á LK Zug II, 33:25 í 16-liða úrslitum. Harpa Rut skoraði þrjú mörk í leiknum.
- Rautt spjald með útilokun sem Thelma Dögg Einarsdóttir leikmaður FH fékk í viðureign við Hauka U í Grill 66-deild kvenna á laugardaginn var dregið til baka. Dómarar leiksins sáu sig um hönd eftir að hafa skoðað upptöku af atvikinu sem leiddi til þess að þeir lyftu rauða spjaldinu. Óskuðu þeir eftir því við aganefnd að útilokunin og spjaldið væri afturkallað og varð aganefnd við þeim óskum. Þetta kemur fram í úrskurði aganefndar HSÍ í vikunni.
- Þýska landsliðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, mætir portúgalska landsliðinu í tveimur vináttuleikjum rétt áður en flautað verður til leiks á Evrópumótinu í janúar. Leikirnir fara fram 4. og 6. janúar í Flensburg og Kiel.
- Storhamar, liðið sem Axel Stefánsson þjálfar í norsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki, vann Tertnes, 44:25, í 11. umferð deildarinnar í fyrrakvöld. Storhamar er í öðru sæti deildarinnar með 20 stig, tveimur stigum á eftir Vipers Kristiansand. Stöðuna í norsku úrvalsdeildinni og fleiri deildum Evrópu er að finna hér.
- Jordi Ribera þjálfari karlalandsliðs Spánar í handknattleik karla hefur framlengt samning sinn um þjálfun landsliðsins fram yfir Ólympíuleikana sem fram fara í Los Angeles sumarið 2028. Ribera hefur þjálfað spænska landsliðið frá 2016. Undir hans stjórn vann spænska landsliðið Evrópumeistaramótið 2018 og 2020 auk bronsverðlauna á HM 2021 og á Ólympíuleikunum sumarið 2021. Ribera stendur á sextugu.
- Norska úrvalsdeildarliðið Elverum hefur bjargað sér út úr vandræðum vegna langvarandi meiðsla markvarða liðsins sem handbolti.is sagði m.a. frá. Samið hefur verið við gamla refinn Morten Nergaard um að leika með Elverum út keppnistímabilið. Nergaard er þrautreyndur markvörður en hafði verulega dregið saman seglin þegar Elverum sóttist eftir kröftum hans og verið markvörður Alta sem leikur í þriðju efstu deild í Noregi. Nergaard verður gjaldgengur með Elverum um helgina þegar liðið mætir Sandnes í úrvalsdeildinni.
- Sænski markvörðurinn Niklas Kraft hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg fram til ársins 2026. Kraft kom til Ribe-Esbjerg í sumar frá Ystads í Svíþjóð en hann lék m.a. með liðinu gegn Val í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð. Kraft hefur þótt standa sig vel hjá Ribe-Esbjerg á leiktíðinni og orðið til þess að tækifærum Ágústar Elís Björgvinssonar hefur fækkað að sama skapi. Ágúst Elí er samningsbundinn Ribe-Esbjerg fram á næsta sumar.