- Auglýsing -
- Harpa Rut Jónsdóttir og samherjar hennar í Amicitia Zürich unnu Spono Eagles, 24:23, í annarri viðureign liðanna í undanúslitum úrslitakeppni svissnesku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Harpa Rut skoraði eitt mark í leiknum. Oddaleikurinn fer fram á heimavelli Spono Eagles á sunnudaginn.
- Andrea Jacobsen lék sinn síðasta leik með Silkeborg-Voel í gær þegar liðið tapaði fyrir SønderjyskE, 32:29, á heimavelli í síðustu umferð riðlakeppni átta liða úrslit um danska meistaratitilinn. Andrea átti eitt markskot og gaf tvær stoðsendingar. Silkeborg-Voel komst ekki í undanúrslit. Það lá fyrir áður en að leiknum í gær kom. Esbjerg, Nykøbing, Odense og Ikast leika í undanúrslitum.
- Andrea flytur til Þýskalands í sumar og leikur með Blomberg-Lippe í efstu deild næstu tvö ár.
- Handknattleiksmaðurinn Jonathan Würtz hefur verið útskrifaður úr krabbameinsmeðferð sem hann hefur verið í síðustu mánuði. Würtz er byrjaður að líta á æfingar hjá danska úrvalsdeildarliðinu Skjern á nýjan leik. Würtz færir sig um set í sumar og verður samherji landsliðsmannanna Ágústs Elís Björgvinssonar og Elvars Ásgeirssonar hjá Ribe-Esbjerg frá og með næsta keppnistímabili.
- Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin varð að draga sig út úr landsliðinu í gær vegna afleiðinga höfuðhöggs sem hann fékk í kappleik með Aalborg Håndbold gegn Bjerringbro/Silkeborg í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. Framundan eru tveir leikir hjá danska landsliðinu á laugardag og sunnudag, gegn Noregi og Króatíu á móti í Arendal í Noregi.
- Auglýsing -