- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Harpa, Dana, Aldís, Tryggvi, Arnar, Tumi, Óðinn

Harpa María Friðgeirsdóttir leikur með TMS Ringsted í Danmörku. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -
  • Áfram heldur Harpa María Friðgeirsdóttir að gera það gott með TMS Ringsted í næst efstu deild danska handknattleiksins. Hún skoraði fimm mörk í gær þegar Ringsted vann Ejstrup-Hærvejen, 30:28, á útivelli í 4. umferð. Franska landsliðskonan fyrrverandi, Alexandra Lacrabere, sem óvænt gekk til liðs við Ringsted í sumar, skoraði 10 mörk og náði að sýna hvað í henni býr.
  • TMS Ringsted situr í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fjórar viðureignir. Harpa María, sem lék með Fram, gekk til liðs við lið félagsins í sumar eftir að hún hóf meistaranám í verkfræði í Danmörku.
  • Dana Björg Guðmundsdóttir átti enn einn stórleikinn með Volda í næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Hún skoraði 11 mörk í 17 marka sigri Volda á Vålerenga, 39:22. Í hálfleik var staðan 18:13. Volda er efst í deildinni ásamt Fjellhammer með 10 stig. Birta Rúna Grétarsdóttir leikur með Fjellhammer en liðið átti ekki leik í gær.
  • Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði tvisvar þegar Skara HF tapaði í heimsókn til Önnereds í Gautaborg í gær, 25:21. Skara hefur unnið einn af fjórum fyrstu leikjum sínum. Eins og kom fram á handbolti.is þá sagði þjálfarinn starfi sínu lausu fyrir helgi. Annar hefur tekið tímabundið við meðan þjálfara til lengri tíma er leitað.
  • Svíþjóðarmeistarar Sävehof með Selfyssinginn Tryggva Þórisson innanborðs unnu Amo HK, 43:36, á heimavelli Amo í gær í 6. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Tryggvi skoraði tvisvar fyrir Sävehof. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fimm mörk fyrir Amo sem er í áttunda sæti með sex stig. Sävehof hefur tveimur stigum fleira en er í þriðja sæti.
  • Tumi Steinn Rúnarsson skoraði fimm mörk og átti eina stoðsendingu þegar lið hans Alpla Hard vann Bärnbach, 30:26, í 1. deild austurríska handknattleiksins í gær. Hannes Jón Jónsson er sem fyrr þjálfari Alpla Hard. Liðið er í þriðja sæti með 10 stig eftir sjö leiki, er þremur stigum á eftir BT Füchse sem er efst sem stendur.
  • Kadetten Schaffhausen vann öruggan sigur á Wacker Thun, 36:29, í 10. umferð svissnesku A-deildarinnar í gær en leikið var í Schaffhausen. Óðinn Þór skoraði sex mörk, eitt þeirra úr vítakasti. Kadetten er efst í deildinni með 18 stig eftir 10 leiki. HC Kriens er næst á eftir með 13 stig en hefur lokið níu viðureignum.
  • Stöðuna í A-deildinni í Sviss og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -