- Auglýsing -
- Handknattleikskonan Harpa Rut Jónsdóttir gekk til liðs við SGF HV Olten í B-deildinni í Sviss í upphafi ársins eftir að hafa leikið með meisturum LK Zug síðasta árið. Harpa Rut skoraði átta mörk fyrir SGF HV Olten í gær þegar liðið vann LC Brühl2, 40:25, á heimavelli. Þetta var annar leikur Hörpu Rutar með nýja liðinu sem er efst í B-deildinni og stefnir á sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili.
- Andrea Jackobsen, landsliðskona í handknattleik, og stöllur hennar í sænska liðinu Kristianstad unnu HC DAC Dunajská Streda, 23:21, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í gær. Leikið var í Slóvakíu. Andrea varð þriðja markahæst hjá Kristianstad með fjögur mörk. Síðari leikur liðanna verður í dag á sama stað og í gær.
- Færeyska handknattleiksliðið H71 heldur áfram að skrifa færeyska handknattleikssögu. Í gær komst liðið í 8-liða úrslit í Evrópubikarkeppni kvenna. H71 vann ZRK Naisa Nís frá Serbíu, 30:26, í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum. Leikið var í Hoyvík í Færeyjum. H71 vann einnig fyrri viðureignina sem fram fór í Serbíu og rimmuna þar með samanlagt, 69:64. Þetta er í fyrsta sinn sem færeyskt lið vinnur sér sæti í 8-liða úrslitum í Evrópukeppni félagsliða.
- Heimsmeistarar Dana og Evrópumeistarar Spánar hafa tryggt sér sæti í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla. Danir unnu Slóvena í gær, 33:24, í A-riðli og Spánn vann Svíþjóð, 32:28, í E-riðli.
- Þýski landsliðsmaðurinn Julius Kühn greindist með covid í gær en hann er í þýska landsliðinu sem tekur þátt í Evrópumótunu. Ljóst er að Kühn leikur ekki næstu tvo leiki Þjóðverjar í riðlakeppni mótsins, hið minnsta. Þýska landsliðið mætir austurríska landsliðinu í Bratislava í dag.
- Auglýsing -