- Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk í gær þegar pólska meistaraliðið Łomża Industria Kielce vann El Bathco Balonmano Torrelavega, 35:32, á æfingamóti á Spáni en þar var pólska liðið í nokkra daga við æfingar og keppni. Fyrir helgina tapaði Kielce fyrir Helvetia Anaitasuna, 33:32. Haukur skoraði einnig tvö mörk í þeim leik. Elliot Stenmalm, Nedim Remili, Alex Dujshebaev og Arkadiusz Moryto eru allir á sjúkralista hjá Kielce og tóku ekki þátt í leikjunum á Spáni.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði tvö mörk fyrir IFK Skövde sem vann Amo HK, 33:29, á útivelli í annarri umferð annars riðils bikarkeppninnar á fyrsta stigi. Skövde-liðið stendur vel að vígi í riðlum eftir tvo sigurleiki eins og IFK Ystad.
- Ómar Ingi Magnússon skoraði tvisvar sinnum og Gísli Þorgeir Kristjánsson einu sinni þegar lið þeirra, SC Magdeburg, vann Erlangen í æfingaleik að viðstöddum 1.000 áhorfendum í gær, 36:33. Magdeburg leikur einn æfingaleik til viðbótar áður en liðið mætir Kiel í meistarakeppninni í Þýskalandi miðvikudaginn 31. ágúst. Leikurinn markar upphaf keppnistímabilsins í þýska karlahandknattleiknum.
- Níu mörk frá Viggó Kristjánssyni nægðu Leipzig ekki í gær þegar liðið mætti Füchse Berlin á heimavelli í æfingaleik. Berlínarliðið vann með fimm marka mun, 32:27, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:11.
- Færeyingurinn Óli Mittún, sem var markahæsti og besti leikmaður Evrópumóts U18 ára landsliða á dögunum, verður samherji Tryggva Þórissonar hjá sænska liðinu IK Sävehof. Mittún samdi fyrr á þessu ári við sænska liðið sem hafði þá haft piltinn undir smásjá um nokkurt skeið. Fyrir er hjá IK Sävehof frændi Mittún og landi, Elias Ellefsen á Skipagøtu, sem einnig gekk til liðs við félagið 17 ára gamall fyrir þremur árum.
- Auglýsing -