- Auglýsing -
- Haukur Þrastarson og félagar í Dinamo Búkarest unnu CSM Búkarest, 29:23, í síðasta leik ársins hjá liðunum í rúmensku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Haukur skoraði tvö mörk í leiknum. Dinamo hefur þar með unnið 13 leiki og gert eitt jafntefli í leikjum tímabils í rúmensku deildinni. Liðið hefur talsverða yfirburði. Næstu leikir í deildinni verða í byrjun febrúar.
- Johannes Golla fyrirliði þýska landsliðsins og leikmaður Flensburg-Handewitt gengur til liðs við MT Melsungen sumarið 2026 en eins og margir þekkja þá eru Þjóðverjar afar skipulagðir og hugsa langt fram í tímann. Þrálátur orðrómur hefur verið um samning Golla við Melsungen en loks í gær var orðrómurinn staðfestur. Samningurinn gildir í fimm ár, til loka leiktíðar 2031. Fram kemur í tilkynningu að ekki sé útilokað að skiptin eigi sér stað næsta sumar en þá verða félögin að ná samkomulagi.
- Melsungen og Flensburg mætast í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar annað kvöld á heimavelli Melsungen í Kassel. Leikurinn verður enn athyglisverðari í ljósi tíðinda gærdagsins.
- Sebastian Hinze lætur af störfum þjálfara Rhein-Neckar Löwen í lok leiktíðar. Samkomulag þess efnis hefur náðst á milli hans og félagsins þess efnis. Ólík sýn á framtíðina er sögð ástæða þess að samstarfið verður ekki lengra. Hinze kom til Löwen sumarið 2022 eftir að hafa þjálfað Bergischer HC í áratug með athyglisverðum árangri. Undir stjórn Hinze varð Rhein-Neckar Löwen þýskur bikarmeistari vorið 2023.