- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Haukur, Sicko, Heiðmar, Smajlagić, Vujović

Haukur Þrastarson leikmaður Kielce t.h. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir Industria Kielce þegar liðið vann Gwardia Opole, 40:24, á útivelli í 22. umferð pólsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær en leikið var á heimavelli Gwardia Opole. Kielce er í öðru sæti deildarinnar með 63 stig eftir 22 leiki. 
  • Óttast er að Szymon Sicko, einn besti leikmaður Kielce í vetur, hafi meiðst alvarlega í leiknum við Gwardia Opole og leiki ekki með liðinu á næstunni. Töluvert hefur verið um meiðsli í herbúðum pólsku meistaranna á leiktíðinni og virðist Sicko vera enn eitt fórnarlambið í þeim efnum. 
  • Heiðmar Felixson hefur við annan mann tekið við þjálfun TSV Burgdorf II sem leikur í þýsku 3. deildinni. Liðinu hefur vegnað illa upp á síðkastið og verður það hlutverk Heiðmars og félaga hans að snúa við gengið TSV Burgdorf II og tryggja áframhaldandi veru í deildinni. Heiðmar verður áfram aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem leikur í efstu deild karla. 
  • Irfan Smajlagić hefur verið leystur frá starfi landsliðsþjálfara Bosníu í handknattleik karla. Hann tók við þjálfun landsliðsins í október 2022 og var með samning fram í október á þessu ári. Vegna vonbrigða með árangurinn á EM í janúar óskaði Smajlagić eftir að fá að láta af störfum. Bosníumenn töpuðu fyrir Svíum, Hollendingum og Georgíu á EM. Bosnía mætir Portúgal í umspili HM í vor. 
  • Hinn þrautreyndi þjálfari og fyrrverandi handknattleiksmaður, Veselin Vujović, hefur verið ráðinn þjálfari RK Nexe í Króatíu. Hann tekur við af Branko Tamše sem óvænt var sagt upp störfum á dögunum. RK Nexe hefur á síðustu árum verið næst besta karlalið Króatíu, næst á eftir RK Zagreb sem unnið hefur meistaratitilinn í Króatíu sleitulaust frá árinu 1991. 
  • Vujović hefur marga fjöruna sopið við þjálfun, jafnt félagsliða sem landsliða. Síðast var hann þjálfari karlalandsliðs Íran en hætti snemma árs. Vujović kemur til starfa hjá Nexe á morgun.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -