- Auglýsing -
- Hildigunnur Einarsdóttir og samherjar í Leverkusen töpuðu naumlega fyrir Blomberg-Lippe, 27:26, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Leikmenn Blomberg skoruðu tvö síðustu mörk leiksins en Leverkusen var marki yfir í jöfnum leik þegar tæplega tvær mínútur voru til leiksloka. Hildigunnur skoraði eitt marka Leverkusen í leiknum.
- Leverkusen er í sjöunda sæti af 16 liðum í deildinni með átta stig eftir sjö leiki. Blomberg skaust upp í þriðja sæti með sigrinum, hefur 12 stig og er aðeins tveimur stigum á eftir Dortmund sem er í efsta sæti.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti, Bergischer HC tapaði fyrir Flensburg, 30:25, á heimavelli Bergischer í gærkvöld í þýsku 1.deildinni. Ragnar Jóhannsson skoraði ekki mark fyrir Bergischer. Flensburg var sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:10. Flensburg komst í efsta sæti deildarinnar með sigrinum. Liðið hefur 10 stig eftir sex leiki og er stigi á undan Stuttgart. Bergischer er í áttunda sæti með sjö stig eftir sex leiki.
- Í hinni viðureign þýsku 1.deildar karla í gærkvöld vann Erlangen lið Tusem Essen, 26:20. Sjöttu umferð deildarinnar lýkur í dag.
- Auglýsing -