- Auglýsing -
- Svo vel þótti takast til á síðasta tímabili þegar bestu lið grannþjóðanna Spánar og Portúgal kepptu í fyrsta sinn um Íberubikarinn í karlaflokki að ákveðið hefur verið að koma á fót sambærilegri keppni í kvennaflokki sem fram fer í september í San Sebastian. Bikar- og landsmeistarar þjóðanna tveggja munu þá reyna með sér.
- B-keppni Evrópumóts kvenna í handknattleik fór fram í tveimur hlutum, annarsvegar í Kósovó og hinsvegar í Litáen. Ítalía vann Austurríki í úrslitaleik í þeim hluta sem fram fór í Pristina í Kósovó, 29:21. Spánverjar stóðu uppi sem sigurvegarar í keppninni í Litáen. Spænska liðið vann Færeyinga, 34:23, í úrslitum í gær.
- Spánn og Ítalía ásamt Serbíu og Króatíu mætast í undankeppni í nóvember um eitt laust sæti á HM 20 ára landsliða sem fram fer í Skopje í Norður Makedóníu að ári liðnu. Íslenska landsliðið slapp við undankeppnina með því að leggja Serba í síðasta leik sínum á mótinu síðasta laugardag, 33:22.
- Atli Steinn Arnarsson leikmaður FH og U19 ára landsliðs Íslands í handknattleik fingurbrotnaði í leik við Þýskaland í Lübeck á föstudaginn. Hann verður frá keppni í sex vikur. Af þeim sökum verður hann því miður að draga að sig út úr íslenska landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem byrjar í Króatíu 2. águst. Heimir Ríkarðsson annar þjálfari íslenska liðsins staðfesti þetta við handbolta.is í gær.
- Framarinn og markvörðurinn Breki Hrafn Árnason er í kapphlaupi við tímann að jafna sig svo hann geti verið með íslenska landsliðinu á HM. Breki Hrafn tognaði á læri í sama leik og Atli Steinn fingurbrotnaði. Breki Hrafn fer ekki með til Færeyja á föstudaginn þar sem fyrir dyrum standa tveir leikir við landslið Færeyinga sem einnig tekur þátt í HM í Króatíu. Vonir standa til að Breki Hrafn jafni sig á næstu tveimur vikum áður en lagt verður af stað á HM.
- U19 ára landslið karla kemur til landsins í dag eftir sex daga æfingaferð til Þýskalands. Þegar heim verður komið má reikna með að þjálfararnir Einar Jónsson og Heimir Ríkarðsson kalli inn menn í stað Atla Steins og Breka Hrafns vegna væntanlegrar Færeyjarferðar.
- Auglýsing -