- Auglýsing -
- AEK Aþena jafnaði metin í keppninni við Olympiakos um gríska meistaratitilinn í handknattleik karla í gær með tveggja marka sigri á heimavelli, 25:23. Olympiakos vann fyrsta leikinn með sömu markatölu fyrr í vikunni. Næsti leikur liðanna verður á heimavelli Olympiakos á mánudaginn og fjórða viðureignin fimmtudaginn 13. júní. Vinna þarf þrjá leiki til að verða grískur meistari
- Kenya Kasahara leikmaður Harðar á Ísafirði er á meðal þeirra sem eru í 20 leikmanna æfingahópi japanska karlalandsliðsins fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í París í sumar. Fækkað verður í hópnum niður í 14 leikmenn í lok mánaðarins.
- Fjórtán er sá hámarks fjöldi leikmanna sem hvert lið má senda til keppni í handknattleik á ÓL. Reyndar hafa reglur um varamenn utan hóps verið rýmkaðar upp í þrjá úr einum. Varamennirnir búa utan Ólympíuþorpsins.
- Úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í handknattleik fer fram í Lanxess Arena í Köln á laugardag og sunnudag. Evrópumeistarar síðasta árs, Magdeburg, leikur við Aalborg í undanúrslitum á morgun. Í hinni viðureign undanúrslita mætast Barcelona og THW Kiel. Uppselt er á báða leikdaga, 19.500 miðar voru seldir á hvorn þeirra. Rétt rúmlega 200 sjálfboðaliðar gefa vinnu sína í og við keppnishöllina þessa helgi.
- Talið er víst að króatíski handknattleiksmaðurinn Luka Cindric elti spænska þjálfarann Xavier Pascual frá Dinamo Búkarest til Telekom Veszprém. Cindric mun hafa uppsagnarákvæði í samningi sínum við Dinamo þess efnis að ef Pascual hættir þá eigi Cindric útgönguleið úr samningi sínum. Cindric elti Pascual til Rúmeníu á sínum tíma en Cindric lék undir stjórn hans hjá Barcelona.
- Enn er beðið staðfestingar hjá Veszprém á ráðningu Pascual í starf þjálfara og þar með uppsögn Momir Ilic sem þjálfað hefur lið ungversku meistaranna síðustu þrjú ár. Dinamo greindi á hinn bóginn frá samningslokum Pascual hjá félaginu fyrir nokkkrum dögum.
- Auglýsing -