- Auglýsing -
- Jakob Lárusson stýrði liði sínu, Kyndli, til sigurs í sjöunda leiknum í færeysku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Kyndill vann þá StÍF með 20 marka mun í Þórshöfn, 40:20.
- Turið Arge Samuelsen, fyrrverandi leikmaður Hauka, var yfirburðaleikmaður á vellinum. Hún skoraði 17 mörk fyrir Kyndil sem er efstur í deildinni með 15 stig að loknum níu leikjum. H71 hefur einnig 15 stig og á leik inn á Kyndilsliðið. Neistin er í þriðja sæti með 14 stig eftir níu leiki. Mikil spenna er því í toppbaráttunni hjá Jakobi og liðsmönnum hans.
- Kvennalið ÍBV í handknattleik er komið til suðurhafseyjunnar Madeira eftir langt og strangt ferðalag frá Íslandi. Framundan eru tveir leikir hjá ÍBV á morgun og á sunnudag við Madeira Andebol SAD í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður, lék annan leik sinn í röð í gærkvöld eftir að hafa jafnaði sig af langvarandi meiðslum. Elín Jóna varði fimm skot, 23%, þann tíma sem hún stóð í marki Ringkøbing gegn SønderjyskE í tapi, 30:26. Ringkøbing situr í 9. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 6 stig að loknum 10 leikjum.
- Ungverska landsliðskonan Anett Kovács leikur ekki með FTC (Ferencváros) á keppnistímabilinu eftir að hafa slitið krossband á æfingu í vikunni. Meiðslin eru áfall fyrir FTC en keppni í Meistaradeild kvenna hefst á ný um helgina eftir nokkurra vikna hlé vegna Evrópumóts kvenna í handknattleik.
- Ole Martin Viken sem verið hefur þrekþjálfari norska karlalandsliðsins í handknattleik í áratug lætur af störfum 1. febrúar á næsta ári, að loknu heimsmeistaramótinu sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi. Hann er sagður hafa haft mjög mótandi áhrif á velgengni norska karlalandsliðsins á þessum árum sem eru að baki.
- Auglýsing -