- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Janus, Sigvaldi, Bjarki Már, Örn, Viktor Gísli, Donni, Grétar Ari, Darri

Sigvaldi Björn Guðjónsson leikmaður Kolstad og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru báðir í liði ársins í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik en síða deildarkeppninnar, topphandball.no hefur undanfarna daga kynnt úrvalsliðið jafnt og þétt. Sigvaldi Björn er besti hægri hornamaður deildarinnar og Janus Daði hefur skarað fram úr stöðu miðjumanns. Báðir verða í eldlínunni á morgun þegar Kolstad sætir Elverum heim í annarri viðureign liðanna í úrslitum úrslitakeppninnar. 
  • Spænski landsliðsmarkvörðurinn Gonzalo Pérez de Vargas hefur verið orðaður við þýska meistaraliðið THW Kiel síðustu daga. De Vargas hefur leikið með Barcelona nær allan sinn feril. Fyrir dyrum stendur talsverður niðurskurður hjá handknattleiksliði Barcelona á næstu þremur árum sem bitna mun á styrkleika leikmannahóps liðsins.
  • Bjarki Már Elísson skoraði eitt mark þegar Telekom Veszprém vann HÉP-Cegléd, 44:32, í síðustu umferð ungversku 1. deildarinnar í handknattleik í gær. Veszprém hafnaði í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Pick Szeged. Framundan er einvígi liðanna um ungverska meistaratitilinn. Fyrsti leikurinn verður í Szeged á föstudaginn. 
  • Örn Vésteinsson Östenberg skoraði tvö mörk fyrir TuS N-Lübbecke þegar liðið steinlá í heimsókn til Bietigheim, 32:24, í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. TuS N-Lübbecke er í fjórða sæti þegar tvær umferðir eru eftir. Möguleikar liðsins á öðru sæti og flutningi upp í 1. deild fara þverrandi.  Eisenach og Dessauer standa betur að vígi.
  • Viktor Gísli Hallgrímsson varði 5 skot í marki Nantes þann skamma tíma sem hann stóð í marki liðsins í jafnteflisleik við Nimes á heimavelli, 28:28. Nantes tapaði þar með mikilvægu stigi í toppbaráttunni þegar tvær umferðir eru eftir af frönsku 1. deildinni.
  • PSG er efst með 48 stig en á þrjá leiki eftir en viðureign liðsins við St Raphaël sem átti að fara fram fyrr á leiktíðinni hefur ekki enn farið fram. Nantes og Montpellier hafa einnig 48 stig eins og PSG en eiga tvo leiki eftir hvort. 
  • Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði fimm mörk fyrr PAUC þegar liðið tapaði fyrir næsta neðsta liði frönsku 1. deildarinnar í kvöld, Istres, 32:29, á útivelli. PAUC situr í áttunda sæti deildarinnar með 24 stig þegar tvær umferðir eru eftir. 
  • Aukin spenna hefur færst í botnbaráttu deildarinnar eftir að lifnað yfir liðum Istres og Sélestat. Síðarnefnda liðið vann Chartres í gær, 32:30,  á útivelli. Tölfræðilega upplýsingar um leikinn eru af skornum skammti en vitað er að Grétar Ari Guðjónsson, markvörður, er leikmaður Sélestat. 
  • Sélestat er neðst í deildinni með 12 stig. Istres hefur 14 stig eins og Chartres. US Ivry, sem Darri Aronsson er samningsbundinn hjá, er með 16 stig og eins Créteil. Ivry vann einmitt Créteil í gærkvöld, 29:23, og tryggði sér að öllum líkindum áframhaldandi veru í deildinni á næstu leiktíð. Darri er að jafna sig á erfiðum meiðslum.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -