- Auglýsing -
- Janus Daði Smárason skoraði átta mörk og Sigvaldi Björn Guðjónsson sjö þegar Kolstad vann sinn sautjánda sigur í norsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni í gær. Kolstad lagði Kristiansand Topphåndball, 33:27, í Kristjánssandi. Janus Daði átti einnig fjórar stoðsendingar.
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði þrisvar sinnum fyrir Elverum í öruggum sigri á Bækkelaget, 37:31, í norsku úrvalsdeildinni í gær en leikið var í Nordstrand Arena. Elverum er í öðru sæti deildarinnar með 28 stig eftir 18 leiki og er sex stigum á eftir Kolstad.
- Viktor Gísli Hallgrímsson varði níu skot, þar af eitt vítakast, þegar Nantes vann Lomoges, 37:37, á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Viktor Gísli stóð í marki Nantes annan hálfleik viðureignarinnar. Hlutfallsmarkvarsla Viktors Gísla var 43%. Nantes er í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig eftir 17 leiki, er tveimur stigum á eftir PSG og Montpellier.
- Grétar Ari Guðjónsson varði fimm skot, 31,2%, þann tíma sem hann stóð á milli stanganna í marki Sélestat þegar liðið tapaði með þriggja marka mun fyrir stórliði PSG, 34:31. Leikurinn fór fram í Sélestat. Sélestat rekur lestina í deildinni með fjögur stig, er fjórum stigum á eftir US Ivry sem næst neðst. Sélestat og Ivry komu upp í deildina á síðasta vori.
- Elvar Ásgeirsson skoraði fjórum sinnum fyrir Ribe-Esbjerg í gær þegar liði tapaði Bjerringbro/Silkeborg, 29:21, í leik um þriðja sætið í dönsku bikarkeppninni í gær. Leikið var í Jyske Bank Boxen í Herning. Ágúst Elí Björgvinsson varði 10 skot, 30,3% markvarsla í marki Ribe-Esbjerg. Eins og í undanúrslitaleiknum við Skjern á laugardaginn þá skoraði Ágúst Elí eitt mark í leiknum í gær.
- GOG varð bikarmeistari með sigri á Skjern, 34:29, í úrslitaleik. Þetta var í ellefta sinn sem GOG vinnur bikarkeppnina í karlaflokki.
- Egill Már Hjartarson og félagar í StÍF leika ekki úrslita í færeysku bikarkeppninni um næstu helgi. Þeir töpuðu fyrir KÍF í Kollafirði í gær í síðari undanúrslitaleik liðanna, 31:24. StÍF vann fyrri leikinn 29:27. KÍF mætir H71 í úrslitum.
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði þrjú mörk, Katrín Tinna Jensdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir eitt mark hvor fyrir Volda í, 34:22, tapi á heimavelli í gær í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Volda er neðst með fjögur stig þegar fimm umferðir eru eftir af deildarkeppninni.
- Auglýsing -