- Auglýsing -
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var markahæst hjá Skara HF í gær með sex mörk í tveggja marka tapi fyrir Önnered, 26:24, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Skara.
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fimm mörk fyrir Skara. Fram kom á heimasíðu Skara að um hafi verið að ræða besta leik Jóhönnu Margrétar með liðinu til þessa. Hún var fyrir vikið valin besti leikmaður liðsins og hreppti viðurkenningu af því tilefni.
- Jóhanna Margrét var að leika gegn fyrri samherjum en hún samdi við Önnereds á síðasta vori og gekk til liðs við félagið í sumar. Hún fékk hinsvegar ekki næg tækifæri með liðinu og kaus að flytja sig yfir til Skara þar sem henni hefur vaxið fiskur um hrygg.
- Daníel Freyr Andrésson varði 3 skot af 10 þann tíma sem hann fékk í marki Lemvig í gær þegar liðið sótti Kolding heim og tapaði, 30:26, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Lemvig er næst neðst í deildinni með 10 stig eftir 19 leiki. Kolding er hinsvegar á mjög góðu róli, situr í þriðja sæti.
- Egill Már Hjartarson og samherjar í StÍF gerðu sér lítið fyrir og unnu meistara H71, 31:29, á heimavelli í færeysku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Egill Már skoraði tvö mörk. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 17:17. Mikil spenna var undir lok leiksins en StÍF-liðið missti aldrei forystuna. StÍF er í fjórða sæti deildarinnar. VÍF frá Vestmanna er efst.
- Þórshafnarliðin Kyndill og Neisti skildu jöfn, 23:23, í úrvalsdeild kvenna í Høllinni á Hálsi í gær. Jakob Lárusson er þjálfari Kyndils sem er í öðru sæti deildarinnar en H71 er lang efstur.
- EB, liðið sem Kristinn Guðmundsson þjálfar, tapaði með sex marka mun fyrir VÍF í Vestmanna, 30:24, í úrvalsdeild kvenna. EB er neðst með fjögur stig eins og VB.
- Auglýsing -