- Auglýsing -
- Jónína Hlíf Hansdóttir og félagar í MKS IUVENTA Michalovce frá Slóvakíu féllu naumlega úr leik í undanúrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í gær. Michalovce vann Antalya Konyaalti BSK, 33:27, í síðari leik liðanna í Michalovce í gær. Sigurinn nægði ekki vegna þess að Antalya Konyaalti vann fyrri viðureignina með sjö marka mun. Antalya Konyaalti mætir Guardes í úrslitum keppninnar eftir að hafa lagt Valsbanana í BM Elche, 45:40, samanlagt í hinni viðureign undanúrslitanna.
- Viktor Gísli Hallgrímsson varði 11 skot þann tíma sem hann stóð í marki Nantes í jafntefli við Toulouse, 33:33, á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Nantes er í þriðja sæti deildarinnar með 35 stig eftir 21 leik, stigi á eftir PSG og þremur á eftir Montpellier sem er efst.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði fjögur mörk og átti fjórar stoðsendingar þegar lið hans, Coburg, vann Elbflorenz, 30:29, í þýsku 2. deildinni í gær. Leikurinn fór fram í Dresden tveimur dögum eftir að Brian Ankersen þjálfara Coburg var sagt upp í kjölfar slaks árangurs liðsins í undanförnum leikjum. Hvort sem það var vegna þess eða ekki þá léku leikmenn Coburg vel í gær og unnu á erfiðum útivelli. Íþróttastjóri Coburg hljóp í skarðið og stýrði leik liðsins í gær. Coburg færðist upp um eitt sæti, upp í það tólfta, með þessum sigri.
- Oddur Gretarsson skoraði sex mörk, þar af eitt úr vítakasti fyrir Balingen-Weilstetten þegar liðið gerði jafntefli við Tusem Essen, 21:21, í Essen í gær í 2. deild þýska handknattleiksins. Daníel Þór Ingason skoraði ekki fyrir Balingen að þessu sinni. Balingen er efst í deildinni með 45 stig eftir 27 leiki.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði eitt mark, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli þegar lið hans TuS N-Lübbecke vann Empor Rostock, 25:20, í Rostock í gær. Bæði lið eiga sæti í þýsku 2. deildinni. Sveinn Andri Sveinsson var ekki í leikmannahópi Empor Rostock í leiknum. TuS N-Lübbecke situr í öðru sæti deildarinnar með 41 stig, er þremur stigum á undan Eisenach. Empor Rostock er áfram í næst neðsta sæti.
- Hafþór Már Vignisson skoraði tvö mörk fyrir ØIF Arendal Elite í öruggum sigri liðsins á Sandnes í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær, 34:22. Leikurinn fór fram í Sandneshallen. Hafþór Már og félagar halda í vonina um að ná einu af átta efstu sætunum og komast í úrslitakeppnina. Sem stendur eru þeir í áttunda sæti og eiga leik eftir. Halden er stigi á eftir í níunda sæti og á tvo leiki eftir.
- Fredrikstad Bkl., liðið sem Elías Már Halldórsson þjálfar og Alexandra Líf Arnarsdóttir leikur með í norsku úrvalsdeildinni, vann öruggan sigur á Romerike Ravens, 32:25, á heimavelli í gær. Fredrikstad Bkl. situr sem fastast í sjöunda sæti deildarinnar þegar einum leik er ólokið og ljóst að sæti í úrslitakeppninni er fyrir nokkru í höfn. Alexandra Líf skoraði ekki mark í leiknum í gær.
- Rakel Sara Elvarsdóttir skoraði þrjú mörk og Dana Björg Guðmundsdóttir eitt þegar Volda tapaði fyrir Larvik, 25:30, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í gær. Katrín Tinna Jensdóttir skoraði ekki mark fyrir Volda en lét til sín taka í vörninni og var m.a. einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur. Volda rekur lestina í deildinni.
- Auglýsing -