- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Krickau, Viktor Gísli, Guigou, Abalo, hefur fengið nóg

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins og danska liðsins GOG. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Nicolej Krickau, þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins GOG, hrósaði Viktori Gísla Hallgrímssyni í hástert eftir að GOG vann Bjerringbro/Silkeborg í æfingaleik um helgina, 34:27. Íslenski landsliðsmarkvörðurinn fór hamförum, ekki síst í fyrri hálfleik. 
  • Frönsku handknattleiksmennirnir Michaël Guigou og Luc Abalo léku í síðasta sinn með franska landsliðinu í sigurleiknum á Dönum í úrslitaleik Ólympíuleikanna í fyrradag. Báðir greindu þeir frá þessu eftir leikinn. Abalo er ekki samningsbundinn liði um þessar mundir en franska blaðið La Figaro sagði frá því á dögunum að væntanlega skrifaði hornamaðurinn lipri undir samning fljótlega eftir leikana. Hann var hjá Elverum í Noregi á síðasta keppnistímabili en lék ekkert með liðinu eftir heimsmeistaramótið í Egyptalandi í janúar vegna afar strangra reglna við komu fólks sem ekki hafði norska kennitölu.
  • Guigou hefur tekið þátt í 306 landsleikjum og skoraði rétt liðlega 1.000 mörk á 20 ára ferli með landsliðinu. Abalo hefur klæðst landsliðspeysunni í 286 skipti og skoraði 850 mörk á 16 árum með landsliðinu. 
  • Rússneska handknattleiksstjarnan Anna Vyakhireva hefur fengið nóg af handknattleik, alltént að sinni. Hún segist hafa leikið sinn síðasta handboltaleik og nú sé kominn tími til þess að hvíla sig. Vyakhireva  var valin mikilvægasti leikmaður handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum sem lauk í gærmorgun. Framtíðin verður að leiða í ljós hvort og þá hvenær hún taki fram skóna á nýjan leik. 
  • Vyakhireva  er 26 ára gömul og hefur síðustu fimm ár leikið með Rostov Don í heimalandi sínu. Undanfarin misseri hafa meiðsli plagað hana og segist Vyakhireva vera búin að fá upp í kok af handknattleik, líkamlega en ekki síst andlega.  Hún á enn eftir ár af samningi sínum við félagið
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -