- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Kristinn, Orri Freyr, Embla, Arnar, Sveinbjörn, Egilsnes, Harpa, Aðalsteinn

Kristinn Guðmundsson, tók við þjálfun liðs EB í Færeyjum í sumar. Mynd/Ívar
- Auglýsing -
  • Kristinn Guðmundsson stýrði EB frá Eiði í fyrsta sinn í gær í leik í færeysku úrvalsdeild kvenna þegar keppni hófst. EB, sem er nýliði í deildinni, var kjöldregið af leikmönnum H71, lokatölur 38:18. Leikurinn fór fram í Hoyvik, heimavelli H71.
  • Orri Freyr Þorkelsson skoraði tvö mörk þegar lið hans, Elverum, vann Kristiansand með sextán marka mun, 37:21, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Elverum hefur sex stig að loknum þremur leikjum og situr í efsta sæti deildarinnar.
  • Embla Jónsdóttir var ekki í leikmannahópi Göppingen í gær þegar liðið vann Heide í þýsku 2. deildinni í handknattleik í annarri umferð deildarinnar. Göppingen er með tvö stig.
  • Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk í sjö skotum og átti sex stoðsendingar fyrir lið EHV Aue er það tapaði fyrir Tusem Essen, 32:28, á heimavelli í gær í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki Aue í 27 mínútur og varði fimm skot, þar af eitt vítakasti, 24%. Aue var marki yfir í hálfleik, 14:13. Færeyingurinn, Áki Egilsnes, sem gekk til liðs við Aue í sumar eftir fjögurra ára veru hjá KA, kom lítið við sögu í leiknum.

  • Harpa Rut Jónsdóttir og samherjar hennar í svissneska meistaraliðinu LK Zug fóru illa að ráða sínu á heimavelli í gær í annarri umferð svissnesku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Þær virtust vera með gjörunninn leik gegn Kreuzlingen og sex marka forskot þegar stundarfjórðungur var til leiksloka, 22:16. Flest fór hinsvegar í skrúfuna hjá Hörpu og félögum síðasta stundarfjórðunginn á sama tíma og leikmönnum Kreuzlingen óx ásmeginn svo mjög að þeir unnu með eins marks mun, 26:25. Harpa Rut skoraði ekki mark í leiknum. LK Zug hefur tvö stig eftir tvo leiki.
  • Flest fór hinsvegar á besta veg hjá Aðalsteini Eyjólfssyni og lærisveinum hans í Kadetten í úrvalsdeild karla í Sviss. Þeir unnu RTV Basel örugglega, 28:22, á útivelli og eru með fjögur stig eftir tvær umferðir ásamt fjórum öðrum liðum.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -