- Auglýsing -
- Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna hefur undankeppni Evrópumótsins 2024 í kvöld með leik við landslið Lúxemborgar. Viðureignin fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði og verður flautað til leiks klukkan 19.30. Aðgangur verður án endurgjalds í boði Boozt.com, eins af samstarfsfyrirtækjum HSÍ.
- Berta Rut Harðardóttir og samherjar hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad mæta Kungälvs HK í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar. Eins og í 16-liða úrslitum þá mætast liðin heima og að heiman. Leikirnir fara fram í næsta mánuði.
- Aldrei slíku vant verður Katrine Lunde ekki í leikmannahópi Noregs sem leikur við Ungverjaland og Sviss á næstu dögum í Evrópubikarkeppni landsliða í handknattleik. Lunde er veik og dró sig af þeim sökum út úr hópnum. Olivia Lykke Nygaard markvörður Storhamar var kölluð inn í hópinn.
- Evrópubikarkeppni landsliða er hliðarkeppni sem haldin er annað hvert ár samhliða riðlakeppni undankeppni EM. Í Evrópubikarkeppninni taka þátt ríkjandi Evrópumeistarar og gestgjafar næsta Evrópumóts se í þessu tilfelli eru Austurríki, Sviss og Ungverjaland. Keppnin hefst í dag með viðureign Sviss og Austurríki annars vegar og Ungverjalands og Noregs hinsvegar. Tveir leikir fara fram á laugardag og á sunnudag.
- Verðskuldaða athygli vakti þegar Jordi Ribera landsliðsþjálfari Spánar í handknattleik karla valdi 17 ára tvíburabræður, Petar og Djordje Cikusa, í æfingahóp A-landsliðsins í gær. Bræðurnir þykja mikil efni og eru í akademíu Barcelona. Bræðurnir fóru m.a. á kostum á HM 19 ára landsliða í Króatíu í sumar þegar Spánn varð heimsmeistari.
- Ein fremsta handknattleikskona Ana Gros hefur ákveðið að snúa heim til Slóveníu á nýjan leik næsta sumar, þá að lokinni tveggja ára veru hjá Györ í Ungverjalandi. Krim Ljubljana tilkynnti í gær að Gros haf samið við félagið til tveggja ára frá og með næsta sumri. Gros lék síðast með Krim í skamman tíma vorið 2022 eftir að hafa slitið samningi við CSKA Moskvu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
- Auglýsing -