- Auglýsing -
- Kiril Lazarov skoraði sex mörk og Stojanche Stoilov fimm þegar landslið Norður-Makedóníu vann landslið Sviss, 25:23, í gærkvöld í Schaffhausen í Sviss í 7. riðli undankeppni EM2022. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 10:10. Andre Schmid var markahæstur í svissneska liðinu með sex mörk og Lenny Rubin fimm. Norður-Makedónía hefur fjögur stig eins og Danmörk eftir tvær umferðir. Sviss og Finnland eru án stiga. Fimm leikir verða í undankeppninni í dag. Þar á meðal leikur þýska landsliðsins undir stjórn Alfreðs Gíslasonar við landslið Eistlands í Tallinn.
- Mikkel Hansen og Lasse Andersson léku ekki með danska landsliðinu í gær gegn Finnum í undankeppni EM2022. Hansen fékk högg á fingur í leiknum við Sviss á fimmtudagskvöldið og fékk þar af leiðandi frí gær. Andersson átti á hinn bóginn ekki sinn besta dag í leiknum á móti Sviss og var þar með skilinn eftir heima en leikurinn fór fram í Vantaa í Finnlandi og lauk með öruggum sigri Dana, 40:22.
- Hollenska landsliðskonan Dione Housheer hefur ákveðið að söðla um á næsta keppnistímabili. Housheer hefur samið við Odense Håndbold. Samningur hennar við Nykøbing F. Håndboldklub rennur út næsta voru. Housheer er 21 árs gömul örvhent skytta sem hóf feril sinn hjá VOC Amsterdam en flutti til Nykøbing fyrir tveimur árum. Hún var í sigurliði Hollendinga á HM í Japan fyrir ári.
- Til stóð að Bietigheim, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar og Aron Rafn Eðvarðsson markvörður leikur með, mætti HSG Konstanz í þýsku 2. deildinni í gær. Leiknum var hinsvegar frestað í gærmorgun eftir að nokkrir leikmenn HSG Konstanz greindust með kórónuveiruna.
- Auglýsing -