- Auglýsing -
- Linz varð í gærkvöld austurrískur meistari í handknattleik karla. Linz vann Alpla Hard, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, 31:30, í þriðja og síðasta úrslitaleik liðanna um titilinn á heimavelli Hard í gærkvöldi.
- Linz, sem hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar í vetur, kom inn í úrslitakeppnina af miklum krafti sem lauk með meistaratitlinum í gær. Alpla Hard var deildarmeistari.
- Franska handknattleikskonan Allison Pineau hefur samið til eins árs við franska meistaraliðið Metz eftir að hafa leikið síðast með Krim Mercator Ljubljana í Slóveníu. Pineau hefur lengi verið ein fremsta handknattleikskona heims. Hún hefur ekki gefið kost á sér í franska landsliðið á síðustu árum.
- Tékkar hafa sótt um að halda Evrópumót karla í handknattleik sem fram fer í janúar 2030. Með Tékkum standa Pólverjar og Danir að umsókninni. Til stendur að úrslitaleikur EM 2030 fari fram í Prag. Stórmót í handknattleik hefur ekki verið haldið í Tékklandi frá árinu 1990 þegar HM karla fór þar fram.
- Johannes Sellin fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands heldur áfram þjálfun þýska liðsins HC Erlangen. Sellin tók við þjálfun liðsins síðla í apríl þegar Hartmut Mayerhoffer var látinn taka pokann sinn eftir slakt gengi liðsins. HC Erlangen rétt hékk uppi í þýsku 1. deildinni, varð í þriðja neðsta sæti en tvö lið féllu úr deildinni.
- Auglýsing -