- Auglýsing -
- Katrine Lunde markvörður norska landsliðsins og Evrópumeistara Vipers Kristiansand heldur áfram að bæta eigið landsmet í fjölda landsleikja. Hún leikur á morgun sinn 342. A-landsleik þegar norska landsliðið mætir franska landsliðinu í vináttuleik í Bodø Spektrum.
- Lunde er 43 ára gömul og lék sinn fyrsta A-landsleik í september fyrir 21 ári. Um leið og þetta verður 342. landsleikurinn þá verður um að ræða 38. leikinn við franska landsliðið. Lunde hefur tekið stefnuna á að verða með norska landsliðinu á Ólympíuleikunum sem fram fara í Frakklandi eftir ár.
- Þótt hásumar sé er uppselt á leikinn í Bodø Spektrum en hann og æfingabúðir landsliðanna síðustu daga eru liður í undirbúningi þeirra fyrir HM sem hefst í lok nóvember.
- Lars Christiansen var í gær ráðinn íþróttastjóri danska úrvalsdeildarliðsins KIF Kolding. Christiansen var í vor fyrirvaralaust sagt upp svipuðu starfi hjá þýska liðinu Flensburg-Handewitt. Eftir nokkur erfið ár og talsvert peningabasl hefur hagur KIF Kolding vænkast á ný síðustu tvö ár og náði liðið athyglisverðum árangri í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
- Christiansen er einn þekktasti handknattleiksmaður Dana á síðari árum og er m.a. markahæsti leikmaður landsliðsins með 1.503 mörk. Hann lék m.a. með Kolding frá 1992 til 1996 og lauk ferlinum sem leikmaður félagsins frá 2010 til 2012.
- Gríska handknattleiksliðið Olympiacos tilkynnti í gær að það hafi krækt í Ivan Sliskovic og Miha Kavcic. Ljóst má vera að Olympiacos ætlar að leggja mikið í sölurnar til þess að endurheimta gríska meistaratitilinn á næstu leiktíð.
- Auglýsing -