- Auglýsing -
- Nokkrir traustir handknattleiksmenn eru án samnings þótt komið sé fram á sumar og skammt þangað til flest lið í stærri deildum Evrópu hefja undirbúning fyrir næsta keppnistímabil. Meðal leikmanna sem eru samningslausir má nefna Julius Kühn fyrrverandi landsliðsmann Þýskalands sem hætti hjá SG BBM Bietigheim í byrjun síðasta mánaðar þegar samningi hans lauk.
- Svíinn Isak Persson, sem var einn hægri hornamanna SC Magdeburg á síðasta tímabili leitar nú að nýjum vinnuveitendum á handknattleikssviðinu.
- Sömu sögu er að segja af Norður Makedóníumanninum Martin Tomovski sem kvaddi herbúðir Vfl Potsdam við fall liðsins úr þýsku 1. deildinni í lok síðasta keppnistímabils.
- Hvít-Rússinn Mikita Vailupau er einnig veglaus eftir að samningi hans við One Veszprém lauk. Vailupau lék um árabil í Þýskalandi og hljóp m.a. í skarðið hjá SC Magdeburg fyrir fáeinum árum þegar Ómar Ingi Magnússon var frá keppni vegna meiðsla.
- Annar leikmaður sem var eitt sinn hjá Magdeburg, Tomasz Gebala, veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér á handknattleiksvellinum. Hann var síðast hjá Industria Kielce og þar áður með Wisla Plock.
- Síðast en ekki síst í þessari upptalningu þá er alveg óljóst hvert Akureyringurinn Dagur Gautason stefnir. Hann hefur kvatt frönsku bikarmeistarana Montpellier eftir nærri hálfs árs veru eins og handbolti.is sagði frá í vor.
- Ungverska landsliðskonan Katrin Klujber er á leiðinni í aðgerð vegna hnémeiðsla. Reiknað er með að hún verði frá keppni fyrstu vikur keppnistímabilsins í ungversku deildinni og þar af leiðandi einnig í Meistaradeild Evrópu. Klujber er ein máttarstólpa ungverska liðsins FTC sem leikur á næstu leiktíð undir stjórn Jesper Jensen fyrrverandi landsliðsþjálfara Danmerkur.
- Þjóðverjinn Jörn-Uwe Lommel hefur tekið að sér þjálfun ASV Hamm-Westfalen en liðið féll í 3. deild í á dögunum. Lommel er þrautreyndur leikmaður frá árum áður en þjálfari frá síðari árum. Hann var m.a. aðstoðarmaður Alfreðs Gíslasonar hjá THW Kiel frá 2014 til 2017. Lommel hefur einnig þjálfað landslið Egyptalands og Kína og þjálfað m.a. Füchse Berlin, TuS Nettelstedt og TV Niederwürzbach á velmektar árum þess liðs á tíunda áratug síðustu aldar.
- Auglýsing -