- Auglýsing -
- Tékkensku dómararnir Vaclav Horacek og Jiri Novotny neyddust til þess að hætta við þátttöku á Evrópumóti karla í handknattleik sem hefst um miðjan mánuðinn. Annar þeirra félaga meiddist skömmu fyrir jól. Marko Boricic og Dejan Markovic frá Serbíu taka dómarasæti Tékkanna reyndu.
- Egypski landsliðsmaðurinn Abdelrahman Abdou sem gekk til liðs við franska meistaraliðið PSG í sumar kvaddi félagið um áramótin. Hann hefur þegar samið við RK Zagreb til næstu 18 mánaða. Vonast hann til þess að fá fleiri tækifæri hjá króatísku meisturunum en hjá þeim frönsku.
- Talant Dujshebaev þjálfari pólska liðsins Industria Kielce hefur í gegnum tíðina verið útsjónarsamur við að krækja í efnilega leikmenn og aðstoða við að taka framförum. Milli jóla og nýárs var sagt frá því að Kirill Rabchinski, ungur Hvít-Rússi, hafi samið við pólska liðið og mætt til æfinga í júlí. Rabchinski er talinn vera efni í öflugan handknattleiksmann.
- Andre Haber, þjálfari þýska 2. deildarliðsins HC Elbflorenz í Dresden, hefur framlengt samning sinn við félagið. Haber þykir hafa unnið prýðilegt starf hjá félaginu. Lið HC Elbflorenz er efst í 2. deild ásamt Bietigheim með 28 stig eftir 17 umferðir og stefnir á sæti í efstu deild í fyrsta sinn í sögu sinni. HC Elbflorenz hefur aldrei átt sæti í 1. deild þýska handknattleiksins í karlaflokki.
- Marc Uhd þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Ribe-Esbjerg, sem Elvar Ásgeirsson leikur með, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið. Samningurinn gildir til ársins 2030. Uhd kom félaginu fyrir ári frá TMS Ringsted. Enn sem komið er hefur Uhd ekki tekist að koma liðinu inn á rétta sporið. Sem stendur er Ribe-Esbjerg í 12. sæti af 14 liðum dönsku úrvalsdeildarinnar.
- Auglýsing -


