- Auglýsing -
- Alls fylgdust 675.000 Danir með útsendingu á DR2 í Danmörku frá úrslitaleik Aalborg Håndbold og Barcelona í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla á sunnudaginn. Þegar litið er til þess fjölda sem leit einhverntímann á skjáinn, um lengri eða skemmri tíma meðan á leiknum stóð, hækkar talan upp í nærri 900 þúsund. Alls búa um 6 milljónir í Danmörku.
- Christian O’Sullivan fyrirliði þýska meistaraliðsins SC Magdeburg hefur tekið þátt í fjórum leikjum í röð í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu, í fyrra og í ár. Norðmaðurinn hefur verið svo óheppinn eða klaufalegur að fá rautt spjald í þeim öllum.
- Svíinn Mats Olsson tekur við starfi markvarðaþjálfara hjá þýska handknattleiksliðinu Flensburg í sumar. Hann þekkir aðeins til starfsins en hann sinnti því frá 2010 til 2017. Olsson tekur við af Dananum Michael Bruun sem ráðinn hefur verið markvarðaþjálfari Aalborg Håndbold. Bruun eltir þar með Maik Machulla sem tekur við sem aðalþjálfari danska liðsins í sumar af Stefan Madsen. Bruun og Machulla unnu árum saman hjá Flensburg.
- Enn einn Spánverjinn, Cristian Ugalde, haslar sér völl á sviði þjálfunar eftir að handknattleiksferlinum er lokið. Ugalde hefur verið ráðinn þjálfari hins fornfræga ungverska liðs, Tatabánya KC. Hann hefur leikið með liðinu tvö síðustu ár en hyggst nú söðla um og taka við þjálfun. Ugalde lék með Barcelona lengi vel og einnig með Veszprém. Alls lék Ugalde 131 landsleik m.a. bæði á heims- og Evrópumótum.
- Uros Zorman landsliðsþjálfari Slóvena í handknattleik karla hefur tekið að sér þjálfun hjá uppeldisfélaginu RD LL Grosist Slovan í Ljubljana en 24 ár eru liðin síðan hann kvaddi félagið sem ungur handknattleiksmaður. Zorman hefur síðustu árin þjálfað úrvalsdeildarliðið RK Trimo Trebnje. Í vor vann RK Trimo Trebnje silfurverðlaun í deildinni en varð meistari í fyrra. Gorenje Velenje vann meistaratitilinn í síðasta mánuði.
- Auglýsing -