- Morgan Marie Þorkelsdóttir gat ekki leikið með Val gegn Fram í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á laugardaginn vegna meiðsla. Hún hefur ekki jafnað sig eftir að hafa tognað á ökkla skömmu fyrir æfingaferð Valsliðsins til Spánar í lok síðasta mánaðar. Þess utan fékk hún flensu á dögunum sem bætti gráu ofan á svart.
- Daníel Ísak Gústafsson verður aðalþjálfari U-liðs Stjörnunnar í karlaflokki í vetur. Hann er einnig í þjálfarateymi meistaraflokks karla og starfar með Patreki Jóhannessyni þjálfara. Daníel Ísak er sonur Gústafs Bjarnasonar þrautreynds landsliðsmanns í handknattleik og fyrrverandi atvinnumanns í íþróttinni fyrr á tíð.
- Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu þegar Ribe-Esbjerg tapaði fyrir Aalborg Håndbold, 36:27, í Álaborg í gærkvöld. Bæði lið voru taplaus eftir tvær fyrstu umferðirnar. Ágúst Elí Björgvinsson varði eitt skot í marki Ribe-Esbjerg þann tíma sem hann stóð vaktina.
- Halldór Jóhann Sigfússon og leikmenn hans í danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland töpuðu illa á heimavelli fyrir Lemvig í gær, 27:20. Emil Tellerup markvörður Lemvig reyndist einstaklega erfiður leikmönnum Nordsjælland. Hann varði 17 skot, þar af eitt vítakast, 47,2%.
- Storhamar, sem Axel Stefánsson þjálfar við annan mann, vann Fredrikstad, 39:23, á heimavelli Fredrikstad í gær í viðureign liðanna í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna. Elías Már Halldórsson er þjálfari Fredrikstad sem hefur tvö stig eftir þrjá leiki. Storhamar er efst með sex stig að loknum þremur leikjum eins og Vipers, Larvik og Molde.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði eitt mark í sigri GC Amicitia Zürich á DHB Rotweiss Thun, 36:35, í A-deild kvenna í handknattleik í Sviss í gær. GC Amicitia Zürich hefur þrjú stig í þriðja sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru að baki.
- Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk, öll úr vítaköstum, þegar Balingen-Weilstetten tapaði á heimavelli fyrir HC Erlangen, 27:25, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik á laugardaginn. Daníel Þór Ingason skoraði ekki mark fyrir Balingen í tveimur tilraunum. Balingen er í 10. sæti af 18 liðum deildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki.
- Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm sinnum fyrir Gummersbach í þriggja marka tapi liðsins í heimsókn til Göppingen í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 32:29. Leikurinn fór einnig fram á laugardaginn. Gummersbach og Göppingen eru jöfn að stigum í 11. og 12. sæti deildarinnar með þrjú stig hvort eftir fjórar umferðir.
- Auglýsing -