- Auglýsing -
- Yfirvöld í Þórshöfn í Færeyjum efna til glæsilegrar móttöku í dag fyrir U20 ára landslið karla þegar það kemur heim frá Evrópumeistaramótinu í handknattleik sem lauk í Porto í gær. Færeyingar áttu í fyrsta sinn lið í keppninni að þessu sinni og stóð liðið afar vel og vakti verðskuldaða athygli. Það vann fjóra leiki og tapaði þremur og hafnaði í 10. sæti. Tryggði færeyska liðið sér þátttökurétt á HM 21 árs landsliða sem fram fer á næsta ári. M.a. vann færeyska landsliðið danska landsliðið og var það í fyrsta sinn sem Færeyingar vinna Dani í flokkaíþrótt.
- Móttakan verður við ráðhúsið í Þórshöfn. Boðið verður upp á söng og ræðuhöld, eftir því sem fram kemur í tilkynningu. Eru íbúar Þórshafnar hvattir til að koma og hylla handknattleikskempurnar ungu.
- Þegar Evrópumót 20 ára landsliða var gert upp í gær að loknum úrslitaleiknum varð ljóst að Portúgalinn Francisco Mota da Costa varð markakóngur keppninnar með 58 mörk í sjö leikjum. Daninn Thomas Arnoldsen varð annar með 54 mörk og Slóveninn Mija Janc þriðji með 47 mörk. Andri Már Rúnarsson varð markahæstur íslensku piltanna með 43 og sjötti markahæstur á mótinu. Andri Már skoraði sex mörk að jafnaði í leik. Benedikt Gunnar Óskarsson varð 12. í röðinni yfir markahæstu menn með 37 mörk eins og Martim Mota da Costa eldri bróðir markakóngs mótsins.
- Pablo Urdangarin hefur framlengt samning sinn við Barcelona. Piltur þessi er ekki venjulegur ungur katalónskur piltur heldur dóttursonur Jóhanns Karls fyrrverandi konungs Spánar og er áttundi í erfðaröð spænsku konungsfjölskyldunnar. Móðir Pablo er Kristín systir núverandi konungs. Faðirinn er Inaki Urdangarin sem gerði garðinn frægan með handknattleiksliði Barcelona og spænska landsliðinu á tíunda áratug síðustu aldar áður en hann kvæntist dóttir þáverandi konungs. Kristín og Inaki Urdangarin eiga ekki upp á pallborðið á Spáni eftir að hafa verið bendluð við ýmsa vafasama fjármálagerninga á síðustu árum.
- Auglýsing -